145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er nefnilega alveg sammála honum í því að samgöngumannvirki sem slík geta orðið arðbær. Og auðvitað er allt gott og gilt sem þingmaðurinn sagði varðandi útsvarsgreiðslur og annað slíkt. En það er kannski það sem við stöndum frammi fyrir og þingmaðurinn veit eins og ég, ég bý í dreifðu og stóru kjördæmi, að þau geta mörg ekki beðið. Mörg sveitarfélög eru orðin þannig að þau geta ekki beðið. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við nýtum peningana best. Er það með fleiri tengingum? Eða er það með því að treysta byggð, að einhver þorp leggist hreinlega ekki af, af því að það er mat okkar á því hvað það þýðir að fá sem mest fyrir peningana. Mér finnst við geta horft á þetta frá fleiri en einu sjónarhorni, þ.e. ekki út frá fjöldanum.

Ég veit að við tölum bæði fyrir fluginu og öllu því. Hér er lagt til að styrkja innanlandsflugið. Það var tillaga þingmanna sem varð undir í þessu samhengi og virðist ekki hafa verið notuð varðandi það að lækka flugfargjöld.

Við vitum að innviðir okkar eru daprir og þar er mikil þörf á styrkingu. Hér er lagt til að opna aflagða velli og setja peninga á víð og dreif. Finnst hv. þingmanni það vera meira forgangsmál en að gera þetta að raunverulegum almenningssamgöngum, þ.e. að leggja alla áherslu á að lækka hér flugfargjöld? Þó að hér séu lagðir til peningar eru þeir m.a. til þess að skoða aðstæður, það er ekkert fast í hendi að allir þessir peningar fari í það. (Forseti hringir.) Við eigum ekki fyrir öllu frekar en fyrri daginn, ég tek undir það, en (Forseti hringir.) hver er forgangurinn í þessu máli?