145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:40]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að við deilum sameiginlegum skilningi á því hvernig því yrði fyrir komið, ef af gjaldtöku yrði, að það sé sanngirnismál að slík gjaldtaka beinist ekki að einni samgönguæð eða tveimur sem tilheyra einu kjördæmi öðru fremur.

Í þessari umræðu hefur borist í tal sá gríðarlegi umferðarþungi sem er að sliga allt vegakerfi landsins og ekki síst vegakerfið í höfuðborginni. Eitt af því sem maður hlýtur náttúrlega að velta fyrir sér í því samhengi er hvort við séum ekki komin að þeim tímamörkum að það þurfi að fara að endurhugsa það allt upp á nýtt, taka t.d. upp lestarsamgöngur við höfuðborgina og innan höfuðborgarinnar til þess að létta umferðarþunga af umferðaræðum sem eru að sligast nú þegar og reikna kostnaðinn við að stækka (Forseti hringir.) stofnbrautir, breikka vegi, hanna ný umferðarmannvirki, slaufur og hvað það heitir, taka inn í kostnaðarreikninga af því tagi (Forseti hringir.) sparnaðinn sem af því hlytist að þurfa ekki að fara í slíkar framkvæmdir.