145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

stofnun millidómstigs.

874. mál
[17:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér í fjarveru innanríkisráðherra fyrir frumvarpi til breytinga á ýmsum lögum vegna stofnunar millidómstigs.

Þann 26. maí sl. samþykkti Alþingi tvö lagafrumvörp sem komu á fót millidómstigi á Íslandi. Annars vegar er um að ræða ný heildarlög um dómstóla og hins vegar lög um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Taka framangreind lög gildi 1. janúar 2018. Lögin hafa í för með sér verulegar umbætur í réttarkerfinu sem ætlað er að styrkja stoðir þess og réttaröryggi í landinu og felast þær mikilvægustu í stofnun millidómstigs hér á landi þannig að dómstigin verði eftirleiðis þrjú, héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur. Samþykkt framangreindra laga kallar á breytingar á fjölmörgum lagabálkum. Þótt stærstu skrefin hafi þegar verið stigin með samþykkt nýrra heildarlaga um dómstóla og tilheyrandi breytingum á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, eru fjölmörg ákvæði í öðrum lögum sem lúta í minna eða meira mæli að réttarkerfinu og laga verður að hinni nýju löggjöf. Nauðsynlegar breytingar eru misumfangsmiklar, en þær veigamestu lúta að kæruheimildum á milli dómstiga einkum í fullnusturéttarfari, og málflutningsréttindum lögmanna. Þetta frumvarp er samið og lagt fram í þeim tilgangi að aðlaga gildandi löggjöf að fyrirhuguðum breytingum á íslensku réttarkerfi og er það lagt fram í beinu framhaldi af lögum þeim sem samþykkt voru á Alþingi 26. maí 2016.

Hæstv. forseti. Ég mun nú víkja að helstu atriðum sem snúa að efni og áherslum frumvarpsins. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á lagaskilaákvæði 78. gr. laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, millidómstig, sem samþykkt voru á Alþingi þann 26. maí sl. Samkvæmt ákvæðum eins og það hljóðar nú taka þau lög ekki til mála sem ekki er lokið en sem hafa þegar verið flutt munnlega fyrir Hæstarétti við gildistöku þeirra. Þá er þar jafnframt tekið fram að þau mál sem áfrýjað hefur verið eða kærð hafa verið til Hæstaréttar fyrir gildistöku laganna skuli rekin fyrir Landsrétti.

Við nánari athugun er það mat ráðuneytisins, og er það tekið af þeim sem haft hefur verið samráð við um efnið, að haganlegra sé að gagnstæð framkvæmd verði viðhöfð, þ.e. að Hæstiréttur ljúki meðferð þeirra mála sem til hans hefur verið skotið við gildistöku laganna og að það sama gildi ef tilkynnt hefur verið um áfrýjun eða sótt hefur verið um áfrýjunarleyfi. Með þeirri tilhögun vinnst a.m.k. tvennt: Annars vegar verður komist hjá því að þegar Landsréttur tekur til starfa bíði réttarins fjöldi ólokinna mála sem ljúka þurfi innan skamms tíma. Það aftur veitir dómurum Landsréttar nægilegt svigrúm til að setja sig inn í nýtt starf og undirbúa starfsemi réttarins. Hins vegar er með þessu tryggt að máli ljúki eftir þeim sömu réttarfarsreglum og í gildi voru þegar það hófst, en með því kann að vera komist hjá flóknum vandkvæðum tengdum réttarfarslegum reglum og lagaskilum.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á gildandi lögum um dómstóla til að tryggja að dómarar í héraði verði áfram 42 og dómarar í Hæstarétti verði áfram 10 fram að gildistöku nýrra laga um dómstóla 1. janúar 2018.

Árið 2009 var dómurum í héraði fjölgað tímabundið úr 38 í 43 vegna mikils álags á dómstólana og var sú heimild framlengd þrívegis, síðast árið 2014. Heimild þessi féll hins vegar niður um síðastliðin áramót og samkvæmt gildandi lögum skal ekki skipað að nýju í embætti héraðsdómara fyrr en þess gerist þörf til að dómarar verði 38. Eru dómarar í héraði nú 42.

Árið 2011 var dómurum í Hæstarétti fjölgað um þrjá, þ.e. úr níu í tólf. Var það gert með þeim hætti að frá og með 1. janúar 2013 skyldi ekki skipað í þau embætti dómara sem losnuðu þar til dómarar yrðu aftur níu, en því tímamarki var náð í febrúar 2014.

Í ljósi mikils álags á réttinn samþykkti Alþingi með lögum nr. 37/2015 að fjölga að nýju dómurum við Hæstarétt tímabundið, í þetta skipti úr níu í tíu og gildir sú heimild út árið 2016. Ástæðan fyrir því að lagt er til að þessi tímabundna fjölgun dómara verði framlengd fram að gildistöku nýrra laga um dómstóla er fyrst og fremst sú að kjararáð kvað upp úrskurð þann 17. desember 2015 um laun og starfskjör dómara þar sem veruleg áherslubreyting varð á rétti dómara til símenntunar og námsleyfa. Fram til þess tíma sóttu dómarar um endurmenntunarstyrk í endurmenntunarsjóð dómara og ríkissaksóknara, en með úrskurðunum var gerð sú breyting að dómari á nú rétt á launuðu námsleyfi á fjögurra ára fresti til endurmenntunar, fyrst eftir fjögur ár í starfi, og ávinnur dómari sér þriggja vikna leyfi á hverju ári. Ekki er óvarlegt að ætla að þegar framangreindar breytingar sem leiða af úrskurði kjararáðs verða komnar að fullu til framkvæmda verði að jafnaði fjórir til fimm héraðsdómarar í námsleyfi og einn hæstaréttardómari. Við því verður ekki brugðist öðruvísi en með setningu í embætti dómara í skamman tíma í senn, eða með sama fjölda dómara og nú er.

Setning í embætti dómara hefur verið gagnrýnd nokkuð undanfarin missiri og hefur í því sambandi verið bent á að slíkt fyrirkomulag sé varhugavert út frá meginreglum um sjálfstæði dómara og dómstóla. Þá tekur tíma fyrir nýjan dómara að komast inn í starf sitt og starfsumhverfi dómstólanna með því álagi sem því fylgir. Setning dómara til skamms tíma nýtist dómstólunum að þessu leyti ekki alltaf sem skyldi, enda leiðir af eðli dómstarfa að sá sem settur er til að gegna dómaraembætti í stuttan tíma hefur takmarkaða möguleika á að ná fullum tökum á starfinu og reka mál frá upphafi til enda.

Að auki er ljóst að þeir einstaklingar sem settir eru til dómaraembættis öðlast þar með reynslu sinnar vegna nokkurt forskot á aðra þá sem hug hafa á að sækja um skipun í embætti dómara sem auglýst er laust til umsóknar.

Að lokum er þess að geta að setning dómara í embætti getur dregist, enda tekur setningarferlið tiltekinn tíma einkum þegar starf er auglýst laust til umsóknar opinberlega. Þess eru því dæmi að dómarar hafi verið settir í skemmri tíma en til stóð í upphafi, en augaleið gefur að slíkt nýtist viðkomandi dómstól ekki nægileg vel.

Hvað varðar framlengingu á fjölda dómara við Hæstarétt þá helst tillaga þar að lútandi einnig í hendur við þá sem ég rakti áður um breytingar á lagaskilaákvæði, en mikilvægt er að verði hún að lögum verði tryggt að þann 1. janúar 2018 sitji nægilegur fjöldi dómara í Hæstarétti til að ljúka skjótt þeim málum sem þar verða til meðferðar á þeim tímapunkti.

Í þriðja lagi er í frumvarpi þessu að finna tillögur til breytinga á þeim ákvæðum laga um lögmenn er varða málflutningsréttindi lögmanna. Er í þeim efnum byggt á tillögum sem samþykktar voru á félagsfundi Lögmannafélags Íslands. Lagt er til að skilyrði fyrir leyfi til málflutnings fyrir Landsrétti verði í flestum atriðum hin sömu og nú gilda um öflun málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti, enda ljóst að flestum málum á áfrýjunarstigi mun ljúka fyrir hinum nýja dómstól. Þó eru lagðar til breytingar. Þannig er gert ráð fyrir að fækkun á þeim fjölda mála sem lögmaður þarf að hafa flutt fyrir héraðsdómstólum til að öðlast réttindi fyrir Landsrétti en nú gildir um öflun málflutningsréttar fyrir Hæstarétti. Þurfi lögmaður að hafa munnlega flutt 25 mál í stað 30 mála nú. Hins vegar er fjöldi einkamála aukinn úr 10 í 15. Þá er lagt til að lögmaður þurfi til viðbótar að flytja fjögur prófmál fyrir Landsrétti til að geta fengið málflutningsréttindi á því dómstigi. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að munnlega flutt mál þurfi að uppfylla sérstök skilyrði að öðru leyti til að geta talist prófmál. Í því fellst tilslökun frá því sem nú gildir um öflun málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti, en lögmönnum hefur reynst erfitt að afla sér prófmála til flutnings þar sökum fárra mála sem dæmd eru af fimm eða sjö dómurum.

Svo að lögmaður geti öðlast málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti er í frumvarpinu lagt til að hann þurfi að hafa haft málflutningsréttindi fyrir Landsrétti í þrjú ár og hafa flutt munnlega ekki færri en 15 mál, þar af a.m.k. 10 einkamál. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að lögmaður þurfi að flytja sérstök prófmál fyrir Hæstarétti, heldur öðlist hann rétt til málflutnings þar að uppfylltum framangreindum skilyrðum og skilyrðum laga um lögmenn að öðru leyti.

Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar og viðbætur á ákvæðum fjölmargra sérlaga, einkum á sviði fullnusturéttarfars er varða kæruheimildir á milli dómstiga. Er þar farin sama leið og mótuð var með lögunum sem samþykkt voru í vor og breyttu lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, nr. 49/2016, að stilla í hóf ákvæðum í sérlögum sem heimila kæru eða möguleika á að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að skjóta úrskurðum Landsréttar til Hæstaréttar með kæru.

Í þeim sérlögum sem talið var heppilegt að hafa möguleika á að fá endanlegan dóm Hæstaréttar var farin sú leið að hafa heimildina mjög almennt orðaða. Er þannig kveðið á um að unnt sé að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum samkvæmt umræddum lögum sem fela í sér lokaákvörðun um ágreiningsefnið.

Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á bráðabirgðaákvæðum nýrra laga um dómstóla í því skyni að tryggja að nægilegt svigrúm við undirbúning hins nýja dómstigs, Landsréttar, sem og dómstólasýslunnar. Varða breytingarnar fyrst og fremst hagnýt atriði. Felst veigamesta breytingin sem lögð er til í því að forseti Landsréttar verði skipaður og hefji störf fullu hálfu ári áður en starfsemi réttarins hefst, eða þann 1. júlí 2017. Er þessi breyting nauðsynleg til að tryggja að forseti hafi nægilegan tíma og svigrúm til að undirbúa starfsemi hins nýja dómstóls.

Aðrar breytingar en þær sem hér hefur verið getið eru minni háttar og varða fyrst og fremst lagasamræmingu.

Hæstv. forseti. Ég hef hér gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarps þessa og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.