145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

aðgerðir gegn skattundanskotum.

[10:58]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir að mönnun og fjármögnun embætta skiptir mjög miklu máli en það gera reglur líka. Þess vegna minntist ég aðeins á það í fyrri fyrirspurn um hvað hefði verið gert til að sporna við kennitöluflakki og hvort það hefði verið einhver marktæk niðurstaða úr þeirri vinnu.

Við vitum að hinn almenni Íslendingur greiðir skatta og það hefur gengið ágætlega að innheimta af honum tekjuskatta og virðisaukaskatt. Engu að síður búum við við það kerfi að sumir eiga möguleika á því að nýta sér skattaskjól. Sum fyrirtæki hafa möguleika á því að nýta sér þunna eiginfjármögnun. Ég held að það sé nokkuð ljóst að ekki ríkir mikil sátt um það fyrirkomulag.

Mig langar að ítreka spurninguna til hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) um aðgerðir gegn kennitöluflakki og hvort hann sé ekki sammála mér um að það (Forseti hringir.) sé lykilatriði, ekki bara þegar kemur að almenningi heldur líka (Forseti hringir.) fyrirtækjum og þeim sem sérstaklega hafa tækifæri (Forseti hringir.) til að hafa með þeim eftirlit.