145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[16:51]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég átta mig á því að þetta er að sumu leyti svolítið tæknilegt mál. Hv. þingmaður hefur ekki notið þess eins og sú sem hér stendur að hafa sótt yfir tíu fundi um málið í atvinnuveganefnd þar sem verið er að fjalla um alla kima þess. En fram kemur í minnisblaði frá atvinnuvegaráðuneytinu, og ég legg áherslu á það, að meginmarkmið frumvarpsins sé að taka af öll tvímæli um náttúruverndarlög. Á minnisblaðinu er alls ekki talað um að meginmarkmið frumvarpsins sé að skýra hina flóknu stöðu fyrir norðan heldur að skýra náttúruverndarlög. Einnig kemur fram að frumvarpið sem hér er lagt fram hafi áhrif á önnur verkefni en þau sem tengjast atvinnuuppbyggingu á Bakka. Í þriðja kafla minnisblaðs frá iðnaðarráðuneytinu segir:

„Í fljótu bragði má telja að ákvæðið gæti náð til tiltekinna þátta er tengjast fyrirhugaðri Hvammsvirkjun og einnig er líklegt að ákvæðið hafi áhrif á framkvæmdaleyfi vegna Sandskeiðslínu 1 sem fyrirhuguð er vegna færslu núverandi lína á grundvelli samkomulags við Hafnarfjarðarbæ.“

Ég spyr hv. þingmann, og geri ekki ráð fyrir að hún svari fyrir hv. þingmann sem skrifar undir nefndarálitið, en ég hef alla vega haft það á tilfinningunni í umræðunni allri að hv. meiri hluti Alþingis og hæstv. iðnaðarráðherra hafi lagt af stað í þennan leiðangur til þess að koma fram með mjög sértæka löggjöf en séu núna í vandræðagangi sínum að horfast í augu við að löggjöfin er miklu víðtækari og varðar miklu fleiri atriði og kemur meira og minna til af því að það er óheimilt samkvæmt EES-reglum (Forseti hringir.) að vera með svo sértæka löggjöf að hún sé í þágu einnar framkvæmdar á kostnað hinna sem njóta þá ekki sömu fyrirgreiðslu af hendi löggjafans.