145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka það sérstaklega fram að ég hafi ekki notið þess að sitja alla þessa fundi um málið í atvinnuveganefnd. En ef þetta er eins hún segir, að nú sé ríkisstjórnin komin í vanda — það væri þá ekki í fyrsta skipti sem hún kemst í vanda en ég læt það nú vera. Ég skil það þannig að þau lög sem yrðu sett með þessu ættu að gilda til ársloka 2017. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það er mjög ólíklegt — eða þarf að gæta að áliti ESA varðandi það að ekki sé um mjög sértæka aðgerð að ræða. En það er líka spurning að jafnvel þó að maður hafi leyfi til að gera eitthvað þá þarf maður ekki að gera það. Af því að lögin eiga að gilda til 2017 væri kannski hægt að taka einhverjar fleiri virkjanir þar inn. En þá er spurningin um viljann og um ásetninginn. Eru menn með eitthvert smyglgóss fyrir þá sem eru tilbúnir til að taka hugsanlega afstöðu til þessa eina sérstaka atviks? Auðvitað skilja flestir að til þess að vit sé í málinu þarf að vera rafmagn á milli Þeistareykja og Bakka. En það er þá spurning um vilja. Ég hef skilið það eins og hv. þingmaður að það væri að beiðni sveitarstjórnar fyrir norðan (Forseti hringir.) sem málið er flutt til þess að leysa úr þeim vanda sem þarna er kominn upp og sérstaklega vegna þess hversu langur veturinn er og framkvæmdatími þess vegna styttri en annars staðar á landinu.