145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

yfirvofandi kennaraskortur.

[10:55]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Áhyggjur mínar og spurning mín beinist kannski frekar að leikskólanum og grunnskólanum. Margt gott hefur verið gert hvað varðar framhaldsskólakennslu. Við sjáum hins vegar fram á að við fáum ekki kennara í grunnskóla landsins. Það er of mikið álag, þeir virðast ekki geta sinnt þessu starfi sem skyldi. Það vantar fjármagn, það vantar beinan fjárstuðning í rekstur skólanna. Það er náttúrlega á hendi sveitarfélaganna en ekki síst ríkisins. Framhaldsskólinn er eitt, en bætt ástand þar lagar ekki vanda grunnskólanna, og ekki heldur leikskólanna. 30% starfsfólks í leikskólum hefur leikskólakennaramenntun. Það hlýtur að vera eitthvað sem við þurfum að taka mjög alvarlega.

Af hverju er þetta svona? Af hverju helst fólk ekki í starfi í grunnskólum og í leikskólum landsins?