145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:32]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, þessa umræðu. Það hefur komið fram í máli nokkurra hv. þingmanna að það er erfitt með því formi sem við nýtum í þessari umræðu að ræða þetta risastóra mál með tæmandi hætti. En það er kannski við hæfi hér við þinglok og stöðuna eins og hún er í þinginu við þinglok sem ég er að upplifa í fyrsta skipti, það er aukin spenna og aukinn þrýstingur á alla hluti. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir minntist á risastórt mál, raflínur á Bakka. Þetta er auðvitað lagalega mjög flókið mál og snertir marga þætti. Það er kannski dæmigert fyrir þetta, hvernig við hér á Alþingi tökumst á við jafn flókið mál og það er. En mál sem snýr að gæðum almennt í lagasetningu er ávallt mikilvægt að ræða. Ég held að við ættum að ræða það mun oftar, virðulegi forseti.

Hv. þm. og málshefjandi Birgitta Jónsdóttir kom inn á þingmannamál hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um að efla lagaskrifstofu Alþingis. Þar kemur fram í greinargerð sem ég fór yfir fyrir þessa umræðu að þegar vísað er í gæði í lagasetningu þá er átt við að lög séu alltaf auðskiljanleg og mikilvægt að alltaf sé tryggt að þau standist alþjóðlegar kröfur og stjórnarskrá.

Þetta er stór umræða og hæstv. forsætisráðherra kom síðan inn á það sem ég ætla að fá að taka undir hér í lokin, virðulegi forseti, að hér þarf að efla allt sem lýtur að greiningu, grunni að stefnumótun og mati á áhrifum af lagafrumvörpum.