145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að velta því fyrir sér hvað það er sem felst í vandaðri lagasetningu. Það er mikilvægt að mál fái fagleg efnistök, að þau fái umsagnir og að tími gefist til að ræða við umsagnaraðila og skiptast á skoðunum. Skoðanaskiptin eru lykilatriði, finnst mér. Mér finnst mjög mikilvægt að tími sé gefinn til þeirra því að þau þurfa að geta átt sér stað af virðingu fyrir málinu og af virðingu fyrir gagnstæðum sjónarmiðum og hagsmunum sem geta skipt máli. Dæmi um það er lífeyrissjóðsmálið sem kemur hér eftir mjög víðtæka samningaumleitan úti í samfélaginu, kemur inn í þingið, en svo er ætlast til þess að þingið afgreiði það með flýtimeðferð. Þá er ekki borin virðing fyrir því að þingið þarf sinn tíma til að fullvissa sig um að málið sé vaxið eins og fullyrt er að það sé. Þetta er nú bara eitt dæmi.

Þegar við erum að setja lög þá eru iðulega ákveðin átök á milli sérhagsmuna og almannahagsmuna. Þingmenn þurfa að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart þessu því að það eru oftast nær sérhagsmunirnir sem græða á hraðri málsmeðferð. Auðvitað geta komið upp bráðatilvik í samfélaginu, það þarf að setja neyðarlög, það er einhver almannavá uppi, þingið þarf að hittast um miðja nótt til að leysa brýn almannahagsmunamál, en yfirleitt eru það sérhagsmunamálin sem hagnast á flýtimeðferð.

Annað vil ég nefna áður en tími minn er úti, virðulegi forseti, og það er það hlutverk forseta þingsins að standa vörð um sjálfstæði þingsins og rétt þess til að stunda ásættanleg vinnubrögð við lagasetningu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)