145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:36]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og tek undir ummæli sem hér hafa fallið um mikilvægi þess að vanda allan undirbúning að lagasetningu, sem hingað til hefur mestöll farið fram í ráðuneytum. Það er rétt sem fram kom um það.

Ég vil hins vegar lýsa reynslu minni á þeim tæpu tveimur árum sem ég hef setið á þingi. Ég þykist merkja nokkra breytingu í þessum efnum. Mér hefur þótt þingið taka til sín, með réttu að mínu mati, nokkurt vald í þessu efni. Það hefur ekki hikað við að breyta málum sem hafa komið frá ráðuneytum og jafnvel hafa einstakar fastanefndir Alþingis haft frumkvæði að lagasetningu. Ég tel það til bóta og tel að menn ættu að horfa meira til þróunar í þá átt.

Það er líka rétt að hafa í huga að við lagasetningu vegast á tvenns konar sjónarmið. Stundum fer lagasetning fram í nokkrum flýti vegna brýnnar nauðsynjar og þá getur ýmislegt skolast til. Það er æskilegra að menn vandi sig og hafi tímann fyrir sér í þessu.

Virðulegur forseti. Ef ég mætti leggja til nokkur sjónarmið sem best er að hafa í huga, ef menn vilja vanda til lagasetningar, þá er það til dæmis að hafa í huga að setning laga verði ekki of mikil. Ég tel að menn hafi færst of mikið í fang við lagasetningu, að menn leitist yfirleitt við að leita lausna á tilteknum vanda með lagasetningu. Ég tel að það sé ekki endilega heppilegt í öllum tilvikum heldur eigi menn að horfa til þess að hafa lög almenn, (Forseti hringir.) mjög skýr og þannig úr garði gerð að þau kalli ekki á frekari lagasetningu fljótlega eftir að þau eru sett.