145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er mikilvæg umræða sem á sér hér stað og mér heyrist við í grunninn öll vera sammála um mikilvægi góðrar lagasetningar. Ég tek undir þær áhyggjur sem settar hafa verið fram um áhrif mikils málshraða á lagasetninguna og að það komi niður á gæðunum. Við sjáum þetta kannski kristallast einna best í málinu um Bakka sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir fór í gegnum í ræðu sinni.

En það er annað sem ég hef haft þó nokkrar áhyggjur af þegar kemur að lagasetningu og það eru samlegðaráhrif mála sem koma frá ríkisstjórn en þó frá ólíkum ráðherrum og þar með úr ólíkum ráðuneytum, þ.e. að þau séu lesin saman. Þetta kristallaðist að mínu mati mjög vel í umræðum um breytingar á lögum um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna, þar sem lögð var til breyting á lífeyristökualdri, og svo í frumvarpi um breytingar á lögum um almannatryggingar, þar sem lögð var til önnur breyting á lífeyristökualdri, sem varðar annan hóp, en þessir hópar skarast. Eftir spurningar mínar til hæstv. fjármálaráðherra gat ég ekki skilið betur en þetta hefði aldrei verið skoðað í neinni heildarmynd. Það er mjög bagalegt.

Það er líka mjög bagalegt þegar tíminn er svo naumur, og fara á í stórar breytingar eins og breytingar á almannatryggingalögunum, að nefndarmenn geti ekki einu sinni kallað (Forseti hringir.) eftir sviðsmyndum frá ráðuneytinu um það hvaða áhrif breytingartillögur sem lagðar eru til koma (Forseti hringir.) til með að hafa. Það gengur auðvitað ekki þegar við erum að tala um lífsafkomu fólks.