145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:41]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar í seinni ræðu aðeins benda á eitt, ég veit ekki hvort ég er að fara út fyrir efnið, en ef við tölum um vinnubrögðin hér á Alþingi finnst mér að nú þegar nýtt þing verður sett, væntanlega fyrir jól, sé mikilvægt að þingmenn fái fræðslu, að þeir fái hreinlega að sitja námskeið um það hvernig hlutirnir virka, hvernig lesa á að frumvörp, hvað frumvörp eru, hvernig við förum með breytingartillögur, hvernig við greiðum atkvæði hér inni í sal. Það er nokkuð sem við lærum á hlaupum. Sumir búa svo vel að vera með fólk í sínum flokkum sem þekkir þetta út og inn, en aðrir flokkar hafa ekki þá þekkingu innan borðs.

Ég vil bara kasta því fram hér að það væri góð hugmynd eftir kosningar og áður en nýtt þing er sett að þingmenn fái námskeið í þessum fræðum öllum saman. Ég hef margoft upplifað að við sitjum hér inni í sal og það er einhver ruglingur með breytingartillögur, hver kom fyrst og ef þessi er tillaga er felld, hvað þá, og þar fram eftir götunum. Það skiptir máli að við vitum hvað við erum að gera hérna. Eins ef við erum að tala um frumvörp og lagasetningu er það nú einu sinni þannig að reglugerðir eru settar inn í ráðuneytin, í stjórnsýsluna. Þær hafa oft mun meiri áhrif á líf fólks en lögin sem við setjum og það getur verið fjáranum erfiðara að breyta reglugerð. Við þekkjum það sem höfum reynt að eiga eitthvað við það. Það er ekki endilega við ráðherrann að sakast heldur getur bara verið tregða í stjórnsýslunni við að breyta reglugerð. Þetta er því mjög flókið.

Þetta er mjög áhugaverð og skemmtileg umræða hérna og ég vil þakka fyrir hana. Við hefðum kannski betur tekið hana fyrr og oftar.