145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir mjög skemmtilegar umræður. Eftir að hafa verið hér í nærri átta ár er maður orðinn að alveg hrikalegri kerfiskellingu og er stöðugt að velta því fyrir sér hvernig við getum lagað kerfin okkar þannig að við getum sinnt vinnunni okkar betur fyrir almenning í landinu. Mér finnst, út frá þessari umræðu, ljóst að forseti þingsins þarf að hafa umboð til að nýta sér betur heimildir sínar til dagskrárvalds og að senda mál til baka ef þau koma of seint inn. Það þarf að vera ferli og heimildir til þess að mál sem eru greinilega vanbúin séu send til baka í ráðuneytin eða að Alþingi setji hér upp lagaskrifstofu sem er öflug.

Mér finnst hugmyndin sem kom frá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, um að nýir þingmenn sem koma hér inn fái almennilegan undirbúning um allar þær flóknu hefðir sem hér eru, góðra gjalda verð. Það er ekki síður mikilvægt að endurskoða verklagið hér. Við þurfum að verða miklu sterkari gagnvart framkvæmdarvaldinu, það er bara þannig. Við erum búin að tala um þetta, það kemur alltaf ný hjörð af þingmönnum sem talar um nákvæmlega það sama. Svo fer fólk í ríkisstjórn og það er eins og öll viðhorf breytist. Eina fólkið sem er hæft til þess að taka á þessu erum við þingmenn. Ég vona að á nýju þingi sammælist þingmenn, hverjir svo sem það verða, um að fara í þessar breytingar saman, því að það er nauðsynlegt. Við megum aldrei gleyma því að hver einasti lagabókstafur hefur áhrif á líf fólks. Ég veit ekki hvað ég er búin að segja þetta oft.

Við erum alltaf að heyra af því að hnökrar, smáhnökrar, séu í lögum sem hafi neikvæð áhrif, sem komi í ljós þegar lögin eru ný. Getum við ekki haft hnapp á vef Alþingis þar sem hægt er að benda okkur á þannig hnökra til að Alþingi þurfi ekki að bíða eftir meiri háttar breytingum úr ráðuneytunum til að laga sjálfsagða hluti? (Forseti hringir.) Ég vildi óska þess að við næðum líka að breyta þessum umræðuvettvangi á þann veg að hver einasti þingmaður fengi fimm mínútur til að tjá sig.