145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vaxtagreiðslur af lánum almennings.

[15:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að gefa sér tíma til að taka þessa umræðu hér í dag. Ég held, og margir eru á því, að vaxtastefnan á Íslandi sé undirrót margs ills, ef við getum orðað það þannig. Við búum við stýrivexti sem eru allt of háir og hærri en nokkurs staðar á byggðu bóli. Þessir háu stýrivextir kynda undir því að vaxtakjör gagnvart almenningi séu allt of há. Þessir gömlu stýrivextir valda því að hingað streymir kvikt áhættufé sem styrkir krónuna, jafnvel um of þannig að útflutningsatvinnuvegirnir eru byrjaðir að kveinka sér.

Eitt af því sem ég hef mikinn áhuga á að heyra frá hæstv. ráðherra er hvaða augum hann líti peningastefnu Seðlabankans, hvort hann telji að löggjafinn þurfi e.t.v. að rétta Seðlabankanum hjálparhönd til að komast út úr þessari peningastefnu sem er að sýna sig að virkar ekki nema að litlu leyti. Æ fleiri eru að koma fram og taka undir það hversu galin þessi stefna er. Mig langar að vitna í einn af höfuðpaurunum, ef við getum orðað það þannig, í íslensku viðskiptalífi, formann Samtaka atvinnulífsins, Björgólf Jóhannsson, mikinn rekstrarmann. Hann sagði á fundi um daginn, með leyfi forseta:

„Mér finnst það gjörsamlega út í hött að við séum að horfa á þetta háa vaxtastig. Horfum á allt aðra stöðu í nágrannalöndum sem við erum að berjast við. Ég tel að Seðlabankinn hafi gert afdrifarík mistök á undanförnum mánuðum.“

Hann sagði svo seinna:

„Ég er ekki svartsýnn fyrir hönd míns félags en mér finnst styrking á gengi krónunnar og vaxtastefnan galin. Punktur.“

Þetta sagði hinn lífsreyndi og farsæli forstjóri. Málsmetandi hagfræðingar hafa tekið undir að hér sé vaxtastefnan gjörsamlega gengin af sporunum. Þetta held ég að sé stærsta ástæðan fyrir því að ungt fólk sem hefur menntað sig erlendis kemur ekki heim. Það er út af því að það býr við allt annað vaxtakerfi og allt önnur vaxtakjör á t.d. íbúðum og húsum sem það býr í. Það sér einfaldlega fram á að geta ekki komið heim til að setjast hér að vegna þess að það er það erfitt að koma sér þaki yfir höfuðið miðað við vaxtastefnuna.

Þetta leiðir aftur á móti hugann að því sem er líka eitt af því sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um. Bankakerfið er núna að tveim þriðju í eigu ríkisins og gæti hæglega lent allt í fangi ríkisins. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að hluti bankakerfisins verði ríkisbanki og/eða samfélagsbanki vegna þess að við erum í dauðafæri núna að stokka upp fjármálakerfið á Íslandi. Þess vegna væri fróðlegt að heyra hvaða augum hæstv. ráðherra horfir til þess að við getum stokkað upp bankakerfið, bæði í því skyni að auka hér gegnsæi og hagkvæmni þessa kerfis og það sem hlýtur að vera lokatakmarkið, að lækka hina allt of háu vexti. Hávaxtastefnan smýgur út í alla grunna fjármálakerfisins og hefur það m.a. í för með sér að arðsemiskrafa lífeyrissjóðanna, sem eru mjög virkir bæði á lánamarkaði og fjárfestingarmarkaði, er 3,5%. Það er alveg gríðarlega há tala. Mig langar einfaldlega til að heyra frá hæstv. ráðherra hvaða möguleika hann sér á því að hægt verði að koma böndum á þá vaxtaprósentu sem almenningur og fyrirtæki búa við í landinu, hvernig hægt sé að koma því þannig fyrir að við nálgumst nágrannalöndin sem við berum okkur saman við vegna þess að nágrannalöndin sem búa við allt annað vaxtastig eru út af fyrir sig ekki í öðruvísi málum en við. Ég nefni t.d. Svíþjóð þar sem er bæði húsnæðisbóla, ekki mikið atvinnuleysi þótt það sé meira en hér, þar er hagvöxtur góður þótt hann sé ekki alveg eins mikill og hér — en þar eru menn með -0,25% stýrivexti. (Forseti hringir.) Hér eru þeir í 5,25. Ég er ekki að ætlast til þess að við förum sömu leið og Svíar, en eins og stendur í kvæðinu, fyrr má nú aldeilis fyrrvera.