145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vaxtagreiðslur af lánum almennings.

[15:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er grundvallaratriði í hagstjórn að aðskilnaður sé á milli peningamálastjórnar og ríkisfjármálastjórnar. Seðlabanki Íslands fer með peningamálastjórnina og ríkisstjórnin og við hér á Alþingi förum með hin opinberu fjármál. Það er undirstöðuatriði að pólitíkusar séu ekki með puttana í peningamálastjórninni. Fólk, viðskiptamenn og rekstrarmenn geta haft alveg haft sína skoðun á því að vextir hér séu allt of háir. Þeir geta komið þeim á framfæri. Það eru hins vegar sérfræðingar á sviði peningamálastjórnar sem stýra hér peningamálastefnunni og vöxtunum í landinu. Það er grundvallaratriði að stjórnmálamenn séu ekki á einhvern hátt að reyna að þvinga þá sérfræðinga inn á sína línu. Við munum þegar vextir voru ákveðnir á Alþingi, ég man eftir því þegar afurðavextir voru ákveðnir 4% eða 6%, eða ég man ekki hvað það var, á meðan verðbólgan var miklu hærri. Það þýddi það að fólkið var alltaf að greiða inn á afurðaverðið.

Er hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson að biðja um eitthvað slíkt? Er verið að tala um að við pólitíkusar ætlum að fara að skipta okkur af vaxtastiginu í landinu? Við hljótum að gera það með öðrum hætti. Ég skal segja hv. þingmanni hvað heldur uppi vöxtum í þessu landi og gerir það ólíkt því sem annars staðar er, það er að við erum með minnsta gjaldmiðil í heimi.