145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vaxtagreiðslur af lánum almennings.

[15:20]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er nú dálítið á skjön við það sem lagt var upp með. Það átti m.a. að ræða vaxtakjör neytenda, en farið er að ræða peningastefnu Seðlabankans. Ég ætla fyrst að segja að vextir eru afgjald fyrir fjármagn í tíma. Afgjaldið er í rauninni tekið fyrir það að flýta neyslu eða seinka neyslu og þeir aðilar sem að því koma nálgast einhvers konar verðmæti þarna á milli, hlutfall þarna á milli, sem heita vextir. Inni í þessum vöxtunum eru t.d. ákveðnir mælikvarðar á traust. Það er verðbólga, útlánaáhætta og nokkrir aðrir þættir. Traustið kemur með stöðugri hagstjórn og ekki síst með virðingu fyrir sparifé. En mín reynsla er sú, og hef ég nú fylgst með fjármálamarkaði nokkuð vel í 40 ár og rannsakað alla síðustu öld, að virðing fyrir sparifé er nákvæmlega engin. Sparifé er talið vera frjáls gæði sem allir geti gengið í og þess vegna eigi vextir helst að vera engir þannig að allir þeir sem hafa óskir til geti bara hirt af þessum gæðunum.

Það er satt sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir segir, peningastefna og ríkisfjármálastefna geta aldrei verið á sömu hendi. Sömuleiðis eru verulegar líkur á því að vaxtaákvarðanir og gengisákvarðanir geti ekki verið á sömu hendi, þ.e. menn geta ekki fest gengið, það er frjálst gengi. Ég segi stundum að leigubílstjórar á Keflavíkurflugvelli séu bestu ákvarðanaaðilar um gengi íslensku krónunnar.

Ég segi líka varðandi formann Samtaka atvinnulífsins; hann stýrir fyrirtæki sem hefur fulla heimild (Forseti hringir.) til þess að nota erlend lán, en íslenskir neytendur hafa það ekki. Verið er að sauma að því að þeir geti ekki (Forseti hringir.) notfært sér lága vexti, þannig að … (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu. Ég heyri það að forseti er farinn að slá í bjöllu. Takk fyrir.