145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vaxtagreiðslur af lánum almennings.

[15:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður. Það er alveg rétt, í skýrslu sem gerð var af þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra árið 2011 þar sem fjallað var um verðtryggingu á nokkuð breiðum grunni, kom fram að ekki væri augljós hagur af því fyrir lántakendur að grundvalla verðtrygginguna á öðrum vísitölum en vísitölu neysluverðs. En ég held að við viljum öll sjá það breytast. Það vill enginn hafa þetta svona. Við viljum ekki hafa þessa háu vexti. Þeir eru lágir í flestum Evrópulöndum og Bandaríkjunum og jafnvel neikvæðir, eins og hér hefur komið fram. Það endurspeglar eftirspurn eftir lánsfé eða framboð og svo slakann í efnahagslífinu.

Þessir háu raunvextir sem við búum við eru mjög íþyngjandi fyrir mjög marga. Við höfum fjallað hér um húsnæðiskaupendur og leigjendur og svo framvegis. Sú þunga greiðslubyrði, sem verður þá til þess að við höldum alltaf áfram að taka verðtryggð lán, breytist ekki. Það segir kannski eitthvað um að hinir háu raunvextir sem hér eru núna eru þá til marks um að efnahagslífið sé með öðrum svip en gerist víða annars staðar á Vesturlöndum þar sem fólk og fyrirtæki veigra sér við lántöku og þar er mun minni eftirspurn eftir lánsfé en hér.

Hér minntist málshefjandi á samfélagsbanka. Við í Vinstri grænum höfum talað fyrir því að slíkur banki verði til staðar. Það getur haft sitt að segja varðandi kjörin. En ég tek undir það sem hér hefur komið fram varðandi peningastefnunefnd Seðlabankans. Þar er auðvitað alger aðskilnaður að mínu viti. Það er mjög mikilvægt aðhald á stjórnvöld landsins. Það er bara tæki bankans, aðhaldið sem hann telur nauðsynlegt.

Auðvitað þarf að finna einhvers konar leið, hver svo sem hún er, til að við komumst út úr þeirri hringavitleysu sem endalaust hefur verið á Íslandi. Hvort það er krónunni einni um að kenna eða einhverju öðru skal ég ekki segja um hér. Alla vega er það svo að ef við breytum engu gerist auðvitað ekkert, þá viðhöldum við þessu ástandi, hvort sem það er hagvöxtur eða ekki eða hvort vísitalan hreyfist svona eða hinsegin með þessu eða hinu innan borðs. En í öllu falli held ég að við séum sammála um að við þurfum að (Forseti hringir.) finna út einhverja leið til að komast út úr þessum vítahring.