145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir ítarlegt svar og ég veit að hún fyllir betur upp í í seinna andsvarinu. Mér þykir þetta einkar áhugavert eftir þessa vinnu, sérstaklega varðandi þetta mál af því að svo gífurleg söfnun upplýsinga er og oft er verið að vinna með viðkvæmar persónulegar upplýsingar, og sannarlega hugmyndafræðin sem verið er að stíga hér inn í og kemur fram í viðauka við nefndarálitið, VRA-vottun, sem gengur út á að tollyfirvöld nýti sér aðferðafræði áhættustjórnunar. Ég reikna með að uppfæra þurfi þá öll kerfi og taka til gagngerrar endurskoðunar í raun og veru allar þær heimildir sem t.d. tollyfirvöld hafa til að vinna með slíkar upplýsingar. Þannig að ég trúi því að yfirvöld muni fagna frekari vinnu. Þess vegna hlakka ég til að heyra hvernig hv. þingmaður hnykkir á þessu svari í kjölfarið og beinlínis hvet hv. þingmann til að skoða þetta í framhaldinu varðandi starfshópinn, en í 17., 18. og 21. gr. er lagður til starfshópur með þeim aðilum sem eru að véla um þessi mál.

Ég get ekki annað en freistast til þess að nefna í seinna andsvari í ljósi þeirrar umræðu sem átti sér stað fyrr í dag og hv. þingmaður beitti sér fyrir, sem tengist kannski þessu máli að því leytinu til að rætt var um í sérstakri umræðu vandaða lagasetningu og málshraða. Hér erum við nákvæmlega með risastórt mál og að mörgu leyti flókið. Ég get notað tækifærið og hrósað til að mynda samskiptum við framkvæmdarvaldið, ráðuneytið og svo við nefndarritarann okkar og nefndasviðinu fyrir öfluga vinnu og samvinnu í gegnum allt þetta mál og vildi kannski heyra í hv. þingmanni hvort þetta geti verið dæmi um það hvernig nefnd getur unnið vel og hversu öflugt (Forseti hringir.) nefndasviðið getur verið.