145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir prýðisræðu. Ég ætla að virða ræðu hennar að því leytinu til að vera ekki að lengja umræðuna mikið þannig að ég kem hér bara í eitt andsvar. Ég ætla að fá að þakka henni sérstaklega fyrir hlý orð í garð framsögumanns málsins og líka störf nefndarinnar og þakka henni sömuleiðis samstarfið, virkilega ánægjulegt í mikilvægu máli. Af því að hv. þingmaður fór sérstaklega yfir takmörkun á frádrætti vaxtagjalda þá var það sameiginleg niðurstaða á endanum — þetta er svolítið álitamál, þetta er flókið mál við að eiga, enda hefur tekið langan tíma að koma þessu að í löggjöf og er virkilega ánægjulegt að það hafi loksins tekist eftir bæði þingmannamál og svo vinnu starfshóps sem hv. þingmaður vísaði til, en það eru auðvitað undantekningar í þessu — að fara mildilega inn þannig að við áttum okkur á því hvernig þetta komi út og fara kannski í fótspor þeirra þjóða sem hafa farið þessa leið og herða frekar reglurnar ef þurfa þykir.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir samstarfið í nefndinni og góða ræðu.