146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í máli sínu áðan vék hæstv. fjármálaráðherra að orðinu yfirsýn. Það er tiltölulega áhugavert því að eins og hv. þm. Bjarkey Olsen sagði áðan fengum við þennan doðrant í hendurnar klukkan fjögur í gær þegar við settumst á þingfund og höfum síðan þá þurft að reyna að kynna okkur innihald hans. Ég prófaði að lesa þetta sem svæfingarefni fyrir krakkana í gærkvöldi. Það virkaði ekki mjög vel. Það var ekki samþykkt. Það hefur ekki gefist mikill tími til að kynna sér innihald þessa rits. Án þess er engin yfirsýn. Nákvæmlega núll. Það er mjög slæmt því að það er einfaldlega vottur um óvönduð vinnubrögð að geta ekki gefið sér tíma til þess að kynna sér málið til hlítar. Það leiðir til þess að við tökum kannski ekki ákvörðun eða greiðum atkvæði um þetta plagg með upplýstu samþykki okkar. Það gerir að verkum að það geta komið upp atvik þar sem við segjum: Úps, við kynntum okkur þetta ekki nógu vel.

Það eru sérstakar aðstæður eftir þessar kosningar sem er eðlilegt að taka tillit til. Það hefur gerst áður að fjárlagafrumvarpi hafi seinkað og ekki verið klárað fyrr en í apríl ef mig minnir rétt, þannig að við eigum ekki að láta undan þeirri pressu að klára málið bara af því að það þarf að klára málið. Það eru til aðrar lausnir sem við getum notað til þess að vinna það mjög vel. Þetta er ein mikilvægasta vinnan sem við vinnum í þinginu, það eru fjárlögin. Við þurfum að gera það vel.

Í lögum um opinber fjármál, sem eru mjög fín lög, ég er mjög sáttur við að farið sé í svona vinnu á stærri skipulagsgrundvelli, stendur m.a. í síðustu málsgrein 16. gr., með leyfi forseta:

„Talnagrunnur fjárlaga og frumvarps til þeirra skal vera aðgengilegur á tölvutæku sniði og á opnum miðli og þau gögn skulu vera aðgengileg öllum til eftirvinnslu á tölvutækan máta.“

Þau eru það ekki núna. Það er fjárlagavefur sem er hægt að fara inn á og skoða fyrri fjárlagafrumvörp. Gögnin fyrir þetta frumvarp eru ekki komin þar inn. Það er hægt að fara á aðra vefsíðu þar sem maður getur náð í pdf-skjölin fyrir frumvarpið. Þar getur maður að vísu sýnt einhverja leitartilburði og fundið hvar gistináttagjald kemur fram í frumvarpinu o.s.frv., en samanburður er algjörlega ómögulegur. Ég get ekki látið tölvuna vinna verkið sem hún er búin til til þess að gera. Ég þarf að fara í gegnum frumvarpið. Þetta er bara handavinna. Það er gríðarlega tímafrekt og við höfum ekki mikinn tíma eins og hæstv. fjármálaráðherra bendir réttilega á.

Við erum í því skemmtilega og áhugaverða umhverfi núna að við erum í raun ekki með ríkisstjórn á bakinu. Við erum dálítið óháð þing. Við búum við það að frumvarpið kemur úr fjármálaráðuneytinu þar sem fólk hefur ofsalega mikla þekkingu á því, er búið að hanga yfir því allt árið, þekkir það mjög vel. Við á þinginu þekkjum það ekki neitt. Það skapar rosalega mikið valdamisvægi. Við eigum að fá að gefa okkur tíma til þess að kynna okkur málið og taka upplýsta ákvörðun um innihald þess. Þetta er til næstu ára. Þetta er ekkert lítið sem er verið að gera hérna.

Ég vil nefna örfá atriði sem ég hef á þessum stutta tíma rekið augun í þegar ég hef reynt að bera saman frumvarpið við t.d. þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 sem var samþykkt í vor. Það eru ýmsir liðir sem fara upp og niður. Þar á meðal er t.d. liður 8 um sveitarfélög og byggðamál sem er mjög skrýtinn finnst mér. Þar er gert ráð fyrir 2.027 millj. kr. í fjármálaáætluninni, en útgjaldaliðurinn í fjárlagafrumvarpinu er í tæpum 20 milljörðum. Ég veit ekki hvort það vantar tölu í útgjaldaramma málaefnasviðsins í fjármálaáætluninni eða hvort þarna muni í raun og veru tífalt, það passar ekki alveg því að í fjárlögum 2016 voru þetta 22 milljarðar, það er í rauninni lækkun. Það er ekkert auðvelt að finna í þessu kraðaki út á hvað sú lækkun gengur. Með tilliti til þessa vísa ég í að það er verið að hækka gistináttagjald úr 100 kr. upp í 300 kr., en ekki er gert ráð fyrir því, eftir því sem ég fæ séð, að neitt af því renni til sveitarfélaga eins og var beðið um í skýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga, held ég að hafi verið, þar sem sveitarfélög áttu að fá hlutdeild í gistináttagjaldinu. Það er fullt af svona smáatriðum sem þarf að fara í gegnum.

Annað sem þessi stutti tími gerir er að umsagnaraðilar, þeir fagaðilar sem fara í gegnum frumvarpið, fá líka stuttan tíma til þess að gefa sína umsögn. Sú umsögn verður verri en hún yrði ef þeir fengju góðan tíma til þess að fara vel yfir málið og skila okkur sem erum ekki endilega fagaðilar á þessu sviði góðri umsögn sem við getum tekið tillit til og mark á.

Hérna eru nefndir nokkrir ófjármagnaðir útgjaldaliðir. Það finnst mér dálítið merkilegt því að nú er ástandið pínulítið óvenjulegt. Mér er tjáð að samgönguáætlun sé oft ekki fjármögnuð o.s.frv., en þá er það hvort eð er sama ríkisstjórnin sem tekur við því að fjármagna hana í kjölfarið. En núna voru kosningar, núna er algjörlega nýtt þing. Það þarf ekkert endilega að vera að sömu þingmenn séu áfram, hérna gætu allir verið nýir þingmenn. Það er dálítið spes þegar vitað er að kosningar eru fram undan að gera ráð fyrir útgjaldalið sem er ekki fjármagnaður til handa nýju þingi eftir kosningar. Ef hérna væri sama fólkið þá væri það alveg eðlilegt því að það þyrfti að eiga þann hausverk sjálft.

Því vil ég segja að eins og fjárlagafrumvarpið er kynnt hér með afgangi, sérstaklega með tilliti til þessa 1% afgangs sem þarf að skila vegna uppgreiðslu lána, þá erum við í raun ekki með afgang. Það eru ófjármagnaðir útgjaldaliðir sem éta upp þann afgang ellegar verðum við að henda þeim út. Henda út þingsályktunum fyrra þings. Þessir liðir eru ekki hérna inni. Ef þeir væru settir inn mundu þeir éta upp þann afgang sem er verið að skila. Þar af leiðandi er enginn afgangur (Gripið fram í: Þeir eru ekki þarna.) Það er nákvæmlega það sem ég er að segja. (Forseti hringir.)

Ég legg til að við flýtum okkur hægt. Það er stórmál að gera þetta hratt og illa. Það er stórmál að klára þetta vel og viðhafa góð vinnubrögð. Við þurfum betri yfirsýn á þetta mál. Það vantar margt í framkvæmdina, þ.e. í það verkferli sem lög um opinber fjármál segja til um. Við þurfum að gefa okkur þann tíma sem við þurfum til þess að klára verkið og gera það vel í samvinnu við alla fagaðila og hlutaðeigandi.(Gripið fram í: Heyr, heyr.)