146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[14:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við höldum áfram að ræða forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2017. Það hefur ýmislegt komið fram í þessari umræðu, sem hefur verið mjög góð. Við tölum mörg um nauðsyn þess að tekjuöflun ríkisins sé tryggð. Það er auðvitað grundvöllur þess að við getum rekið þetta samfélag sómasamlega. Ég tel að síðastliðin þrjú ár höfum við misst af tækifærum til að styrkja enn frekar stöðu ríkissjóðs og afla tekna, að við hefðum getað haft betri afkomu núna til að mæta ýmsum þáttum, sem hefur verið dregið að gera, í grunnstoðum samfélagsins, hvort sem það eru heilbrigðismálin, menntamálin, innviðirnir allir, samgöngurnar eða styrking almannatryggingakerfisins og breyting á því í þágu þeirra sem njóta þess og búa við það.

Ég tel að það að hafa ekki tekið ákvörðun um að afla tekna með komugjöldum til landsins hafi verið gríðarleg mistök, að við hefðum átt að hafa kjark til þess strax að fara út í komugjöld. Við hefðum getað stillt þau af eftir árstíma til þess að laða að ferðamenn yfir veturinn, haft lægri gjöld á þeim tíma. Þegar þáverandi ríkisstjórn skildi við árið 2013 hafði hún verið að skoða tekjuöflun með komugjöldum en náði ekki fram neinu nema gistináttagjaldi, sem var mjög lágt, 100 kr. Í þessu frumvarpi er talað um að hækka það upp í 300 kr. Þær tekjur eru samt dropi í hafið miðað við það sem þarf að gera í innviðauppbyggingu. Þetta eru sáralitlir fjármunir í því samhengi öllu. Það er líka mjög mikilvægt að sveitarfélögin fái einhverjar tekjur af hinum mikla fjölda ferðamanna sem kemur til landsins svo að þau geti hvert á sínu svæði byggt upp innviðina og mætt þeim átroðningi sem vissulega fylgir auknum ferðamannastraumi. Sveitarfélögin verða að hafa einhverjar tekjur til þess að byggja upp og bæta innviði sína. Við Vinstri græn höfum lagt mikla áherslu á að það verði endurskoðað og að sveitarfélögin fái hlut af þeim tekjum sem t.d. koma inn með gistináttagjaldinu.

Í þessu frumvarpi er ekkert komið inn á það að menn hafi enn þá vilja eða burði til þess að leggja á komugjöld. Menn tala um að þau geti dregið úr ferðamannastraumi til landsins. Er ekki í góðu lagi þótt eitthvað dragi úr hinum mikla ferðamannastraumi hingað ef við erum ekki tilbúin til að taka á móti öllu þessu fólki, miðað við að innviðirnir eru farnir að gefa sig eins mikið og raun ber vitni? Ég hef ekki trú á því að komugjöld, ef við tölum um 1.000 kr. á hvern flugfarseðil, til eða frá, trufli nokkurn við komuna til landsins. Þetta eru tekjur sem hafa farið í súginn undanfarin þrjú ár. Ég ætla rétt að vona að sú ríkisstjórn sem hér verður og þingið hafi kjark til þess að leggja á komugjöld. Hækkun gistináttagjaldsins í 300 kr. tekur ekki gildi fyrr en 1. september á næsta ári, svo það eru ekki miklar tekjur sem koma af því fyrir næsta fjárlagaár

Ég tel líka mjög mikilvægt að við sem samfélag náum sátt um tekjuöflun. Það hefur alltaf verið talað illa um alla skattlagningu, eins og hún sé af hinu vonda, að það sé verið að mergsjúga almenning og það sett í samhengi við vonda vinstri menn sem vilja almenningi illt og ætla að reyna að draga upp úr vasa þeirra og af launum þeirra sem mesta fjármuni til að setja þá í gæluverkefni. Þetta hefur verið mýtan í gegnum árin. Við vinstri menn höfum kannski verið þeir aumingjar að þora ekki að tala hreint út um það að skattar endurspeglast í góðu samfélagi, góðu velferðarkerfi, góðu menntakerfi og góðum aðbúnaði fyrir aldraða og unga fólkið okkar. Þeir endurspeglast í því öllu saman. Ég held að fólk sé að vakna til vitundar um það og gera sér grein fyrir því.

Nú þegar við ræðum þá hluti og þegar þetta mikla harðlífi er í myndun ríkisstjórnar þá þarf að nota þessa skatta til þess að ná fram árangri í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, sem þorri Íslendinga kallar eftir. Þeir peningar falla ekki af himnum ofan, þeir koma ekki með einskiptisaðgerðum og þeir koma ekki af því að kannski verður meiri tekjuafgangur ef það koma fleiri ferðamenn og eitthvað fellur til, allt upp á von og óvon. Við getum ekki rekið samfélag okkar þannig að það sé tilviljunarkennt hvort við getum aflað tekna til þess að standa undir því. Það verða að vera öruggir og tryggir tekjustofnar svo að við getum rekið þetta samfélag. Svo getum við alltaf talað um ýmis verkefni, sem ég vil ekki kalla gæluverkefni heldur er mismunandi hvaða nýframkvæmdir þjóðfélagið eða ríkið eða við sem samfélag ákveðum að fara í hverju sinni, hvort sem það heitir stækkun Isavia, flugvallarins, Keflavíkurflugvallar t.d., eða hvort farið er í stórframkvæmdir sem að öllu jöfnu gætu beðið, sem er eitthvað sem við getum ýtt á undan okkur. En við getum ekki endalaust dregið lappirnar í málum sem snerta hvern einasta einstakling, eins og varðandi heilbrigðiskerfið og menntakerfið.

Þau voru mikil mistök gerð með því að lækka aldur þeirra sem hafa aðgengi að bóknámi í framhaldsskólum og menntaskólum landsins í 25 ár, það voru gífurleg mistök. Og með niðurskurðinum sem framhaldsskólarnir og háskólarnir hafa staðið frammi fyrir er ekki verið að veðja á framtíðina, á unga fólkið og á það að með aukinni menntun verðum við sem þjóð sjálfbærari og höfum meiri möguleika til þess að framfleyta okkur við mismunandi aðstæður og afla okkur tekna í samfélaginu. Við eigum að fjárfesta í menntun því að það skilar sér til baka. Það er langtímafjárfesting sem skilar sér til baka. Við eigum að fjárfesta þannig að allir hafi aðgang að menntun, ekki aðeins þeir ríku og efnameiri, eins og stýringin hefur verið, beint og óbeint, þeir sem eru 25 ára geti bara farið í einkaskóla sem kostar meira. Fólk sem hefur flosnað upp úr námi af einhverjum sökum, vegna fjölskylduaðstæðna og annars, þarf, eins og fólk t.d. úti á landi, að ákveða hvort það flytji af viðkomandi stað af því það hefur ekki aðgengi að framhaldsskólum sínum lengur eða möguleika á því að ljúka framhaldsskólanámi í heimabyggð sinni. Fækkun nemendaígilda í framhaldsskólanum er mjög landsbyggðarfjandsamleg aðgerð sem ég tel að eigi að snúa við og hætta og ætti ný ríkisstjórn að hafa það eitt af sínum fyrstu verkum.

Það berast neyðarköll víða að. Við heyrðum í fréttum í gær að það kom neyðarkall frá Landhelgisgæslunni. Ég held að við öll hér inni höfum sterkar taugar til Landhelgisgæslunnar vegna þess að hún gegnir stóru hlutverki í löggæslu og björgunarþjónustu á hafi úti og í því að tryggja öryggi sjófarenda. Það er ömurleg tilhugsun að ekki sé hægt að gera út nema eitt varðskip á næsta ári miðað við hvernig fjárlögin líta út og að ekki sé hægt að halda úti björgunarþyrlunni fyrir utan 20 mílur nema í sjö til átta mánuði. Erum við sem rík þjóð, sem höfum byggt allt okkar upp á því að vera með öflugan sjávarútveg og sjósókn, stödd á þeim stað að við ætlum að horfa upp á það að landhelgisgæslan okkar sé fjársvelt? Við getum ekki horft upp á það. Ég hef ekki trú á öðru en að menn sýni þann vilja í fjárlagaumræðunni og við afgreiðslu fjárlaga að bæta þar úr. Þar var óskað eftir 300 millj. kr. til að halda sjó í þeim málaflokki. Þær fengust ekki. Landhelgisgæslan hefur búið við það frá árinu 2010, auðvitað voru árin erfið eftir hrun, að þurfa að leigja út skip sitt í Miðjarðarhafi til þess að afla sér tekna. Við getum ekki endalaust gefið afslátt af því að hafa öfluga landhelgisgæslu sem sinnir gífurlega mikilvægu hlutverki fyrir sjómenn okkar og landsmenn allra, tryggir öryggi á hafi úti og gegnir líka eftirlitshlutverk varðandi landhelgi okkar.

Ég veit að margir hafa þá skoðun að það muni bjarga öllu að fara svokallaða uppboðsleið. Þá séum við að setja auðlind okkar á markaðstorg og þeir sem bjóði hæst geti fengið þann aðgang og þar með séu tekjur ríkisins tryggðar, þ.e. að hægt sé að setja sjávarauðlind okkar á markaðstorg og þannig getum við aflað mikilla tekna sem skila sér aftur í samfélagið. Ég lít þannig á að ekki megi hugsa þannig að auðlindin í sjónum sé eingöngu til þess að afla tekna. Hún er sameign okkar allra. Það skiptir líka máli hvernig hún er nýtt, hvort það eru aðeins stærstu og efnamestu sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem hafa forgang þegar kemur að því að bjóða í, því að þar eru fjármunirnir, þar er aðgengið að bankakerfinu og þar hafa menn möguleika á að bjóða mest í. Það er bara þannig. Ef við ætlum ekkert að horfa á samfélagsþáttinn, ekkert að horfa á rétt byggðanna, ekkert að horfa á rétt þess fólks sem hefur byggt afkomu sína á sjávarútvegi um áratugaraðir og frá aldaöðli, ef við ætlum að setja það algjörlega til hliðar og setja auðlindina á markaðstorg þá erum við ekki samfélag. Þá erum við einungis að hugsa til skamms tíma um að fá miklar tekjur og þjappa auðnum á fárra manna hendur.

Samþjöppun í sjávarútvegi hefur verið að aukast og er að aukast, bæði meðal þeirra sem eru í krókaaflamarkskerfinu og þeirra sem eru í stóra kerfinu svokallaða. Ég segi það að þótt menn líti þannig á að til skamms tíma sé hægt að fá hærri upphæð fyrir afnot af þessu kerfi þá horfum við á enn meiri misskiptingu til lengri tíma. Það njóta enn færri tekna af sjávarauðlindinni. Mér finnst miklu eðlilegra að tekjur og atvinna af sjávarauðlindinni okkar dreifist til fleiri en stærstu fyrirtækjanna sem mundu hafa mestan hag af því að bjóða í. Aðrir mundu smátt og smátt heltast úr lestinni og þá yrði landið okkar ekki svipur hjá sjón. Ég hef talað fyrir því að (Forseti hringir.) hluti af (Forseti hringir.) aflaheimildum okkar geti farið í leigu, en aldrei allar aflaheimildirnar eins og sumir hafa talað fyrir.