146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[14:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Margt hefur verið sagt um þær áherslur sem birtast í fjárlögum og því frumvarpi sem hér er til umræðu. Ég ætla ekki að fjölyrða um þá þróun sem er í gangi í menntakerfi og heilbrigðiskerfi sem ég tel þurfa að bregðast við og mér sýnist á öllum umræðum að fjárlög geri ekki. Mig langar sérstaklega að víkja orðum að því sem hv. þm. Smári McCarthy sagði í neistandi jómfrúrræðu sinni þar sem hann minnti okkur á að samfélag væri fyrir fólk en ekki fjármagn og við þyrftum þess vegna að finna jafnvægi þarna á milli. Þó að þetta heiti fjárlög þá eru fjárlög fyrir fólkið í landinu, þau eru ekki fyrir féð.

Af því að ég er nýr hérna þá kem ég að borðinu hafandi ekki samþykkt þær áætlanir sem eru til umræðu. Ég fæ þær í arf frá fyrri þingum. Þær tvær áætlanir sem helst eru til umræðu í þessari umræðu eru ríkisfjármálaáætlun og samgönguáætlun. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvernig stendur á því að þessar tvær áætlanir sem báðar byggja á þingsáætlun síðasta þings, önnur var samþykkt í ágúst og hin í október, sitja engan veginn við sama borð. Ríkisfjármálaáætlunin virkar á mig eins og spennitreyja, eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir komst að orði áðan. Henni eigum við að fylgja. Hún setur okkur mjög stífan ramma varðandi fjárlög, svo stífan að ég spyr mig hvort þingið sé búið að framselja of mikið vald til framkvæmdarvaldsins, hvort við séum virkilega í þeirri stöðu að fjárveitingavald Alþingis sé skert af ráðuneyti sem sækir umboð sitt hingað.

Á meðan við erum svona rígbundin ríkisfjármálaáætlun, á sama tíma og sá rammi er eins stífur og hægt er þá er samgönguáætlun samþykkt hér fyrir tveimur mánuðum. Það var farið í kosningar í þeirri trú að ráðist yrði í átak í uppbyggingu innviða, vegakerfis, sem við stólum á ekki bara til að komast á milli staða heldur stólum við á að það sé í góðu lagi þannig að öryggi sé ekki teflt í hættu. Þessi samgönguáætlun nær ekki inn í fjárlög af því hún var aðeins samþykkt af þessu þingi sem ekki starfar lengur. Nú eigum við að taka það í fangið og vinna úr því eins og við getum.

Frú forseti. Ég skil ekki þennan mun. Ég skil ekki hvernig önnur áætlunin getur verið svo gott sem heilög meðan hin er léttur leiðarvísir sem við getum haft bak við eyrað.

Mig langar að fletta í þessu frumvarpi til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlagaársins og kíkja á, ekki stóru myndina heldur lúslesa tvö atriði. Hið fyrra er breytingar sem eru fyrirhugaðar á úrvinnslugjaldi. Margar af þeim breytingum eru rökstuddar með ítarlegum og góðum hætti, t.d. er vitnað í heimsmarkaðsverð á blýi til að réttlæta lækkun á úrvinnslugjaldi á blásýrurafgeyma. En svo stinga önnur atriði upp kollinum alveg án útskýringa og rökstuðnings, eins og varðandi 32. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að gúmmíhjólbarðar á golfkerrum verði undanþegnir úrvinnslugjaldi. Mér sýnist enginn úr nefndinni sitja í salnum akkúrat núna, sem er miður, það hefði verið gaman að geta beint orðum mínum til hv. nefndarmanna, en þeir vonandi fylgjast með umræðunni annars staðar í húsinu. Ég spyr mig hverju sæti, hvort hjólbarðar á golfkerrum séu þeim eiginleikum gæddir að þeir úreldist ekki, það þurfi ekki að skila þeim í endurvinnslu ólíkt öllum öðrum hjólbörðum. Eða þá hvort við séum að leggja til að smærri hjólbarðar, þetta eru ekki stærstu hjólbarðar sem framleiddir eru, séu undanþegnir úrvinnslugjaldi og þá spyr ég hvort mætti ekki líta til fleiri hjólbarða. Nú eru gúmmíhjólbarðar undir reiðhjólum t.d. Það mundi ríma ágætlega við áherslur um aukinn þátt vistvænna samgöngumáta. Svo eru hjólbarðar undir barnavögnum. Þar mætti örugglega undanþiggja ekki síður en undir golfkerrunum. En ég viðurkenni, frú forseti, að ég er ekki mikill golfáhugamaður, hef aldrei spilað þá íþrótt, þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvernig í pottinn er búið. Mögulega er einhver í efnahags- og viðskiptanefnd betur inni í golfíþróttinni en ég og mögulega er hæstv. ráðherra því betur kunnugur en ég.

Hitt atriðið sem mig langar að víkja að er annað gjald, búnaðargjaldið. Í 41.–55. gr. frumvarpsins er lagt til að fella niður búnaðargjald. Það er útskýrt með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

„Bændasamtök Íslands, sem teljast til frjálsra félagasamtaka, hafa ákveðið að taka upp almennt félagsgjald sem koma mun í stað búnaðargjalds. Þar með eru ekki lengur fyrir hendi forsendur fyrir því að ríkið hafi aðkomu að innheimtu og álagningu gjaldsins.“

Þetta þykir mér nokkuð mildilega farið með staðreyndir máls sem eru þær að í janúar síðastliðnum var ríkið dæmt fyrir brot á stjórnarskrá, fyrir brot á mannréttindasáttmála Evrópu og fyrir brot á stjórnsýslulögum þar sem þessi innheimta var dæmd ólögmæt. Í framhaldinu er þetta vissulega satt og rétt, í framhaldinu ákváðu Bændasamtök Íslands að fara að innheimta félagsgjöld sín sjálf. En það mætti alveg víkja einhverjum orðum í svona texta að sögu máls en ekki því minnsta mögulega til að sagan líti sem best út.

Í ljósi þessa þætti mér eðlilegt að nefndin athugaði hvort sömu sjónarmið gætu átt við um einhverja fleiri tekjustofna sem eru innheimtir á vegum hins opinbera fyrir frjáls félagasamtök eða annar konar félög úti í bæ. Mér detta þar helst í hug sóknargjöld sem eru innheimt fyrir trú- og lífsskoðunarfélög og eru eitthvað deildar meiningar um hvort séu skattur eða félagsgjöld. Mér sýnist samt á t.d. fréttum frá kirkjuþingum síðustu ára hjá þjóðkirkjunni að þar innan búðar líti menn svo á að þetta sé ekki skattlagning heldur séu sóknargjöld félagsgjöld. Mér þætti því skjóta skökku við að efnahags- og viðskiptanefnd tæki þetta ekki til athugunar samhliða því að fella niður búnaðargjaldið, að hún fengi í það minnsta ítarlegt lögfræðiálit frá innanríkisráðuneytinu á því hvort hið sama eigi við um sóknargjöldin og búnaðargjöldin og eftir atvikum hvort einhver önnur gjöld innheimt af hinu opinbera geti fallið undir sama hatt.

Frú forseti. Ég segi máli mínu lokið.