146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru aðskilin mál, þ.e. 60 ára og eldri hópurinn sem í reynd fær hér, með breytingu á frumvarpinu, bakábyrgð og svo varasjóðurinn sem eingöngu er ætlað að bregðast við ef þær forsendur sem menn gáfu sér varðandi lífeyrisaukann hafa brostið. Þá er verið að horfa til þess sérstaklega hvert virðið er í jöfnu réttindaávinnslunni og lífeyristökualdrinum. Það er búið að reyna að leggja á það mat. Samningsaðilar ríkis og sveitarfélaga treystu ekki 100% því mati og óttuðust að í framtíðinni gæti mögulega komið í ljós að einhverjar forsendur mundu bresta og þá þyrfti, vegna þess að bakábyrgðin er afnumin, að vera einhvers konar varasjóður. Þann varasjóð buðumst við til þess að leggja fram, en við ætlum bara að láta hann standa þarna til þess að mæta þessum mögulega forsendubresti. Við gerum ráð fyrir því að þeir fjármunir renni bara aftur í ríkissjóð reyni ekki á þann forsendubrest. Við höfum trú á þeim útreikningum sem liggja hér að baki og að ekki muni reyna á varasjóðinn.