146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er stórmál sem hér liggur fyrir og við höfum rætt áður. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um það. Við fórum ágætlega yfir málið þegar það var rætt síðast. Það er búið að gera breytingar á frumvarpinu til batnaðar. Mér finnst þó mikilvægt að nokkrum atriðum sé haldið til haga áður en við hefjum þinglega meðferð málsins í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Það liggur fyrir að við höfum fengið að fylgjast með þessu máli frá því að samkomulag náðist milli stjórnvalda og heildarsamtaka á vinnumarkaði en það verður að segjast eins og er að það er óheppilegt að uppi sé mismunandi túlkun og skilningur á samkomulaginu. Það hefur komið fram í þeim umræðum sem hér hafa verið, í ræðu hæstv. ráðherra og andsvörum, að það liggur fyrir að einhver samtök og félög segja að það sé þeirra skilningur á samkomulaginu að þeir sem séu inni í A-deildinni eigi að fá að halda þeim réttindum áfram, þ.e. halda áfram að vera inni í A-deildinni þangað til starfsævi þeirra lýkur.

Það liggja líka fyrir þau sjónarmið stjórnvalda að með því móti næðum við ekki fram jöfnum lífeyrisréttinda nema á mun lengri tíma. En hins vegar er óheppilegt að skilningurinn hafi ekki verið sameiginlegur. Það er kannski það sem gerir þetta mál erfitt. Við horfum upp á að þeir sem hafa setið við borðið eru ekki nákvæmlega sammála um hvernig á að túlka samkomulagið þótt enginn hafi raunar sagt sig frá því.

Við gagnrýndum það talsvert þegar mælt var fyrir málinu í haust að við þyrftum tíma til að fara yfir það. Það væri ekki hægt að taka þetta mál fyrir á örfáum dögum. Í sjálfu sér er staðan ekkert ósvipuð núna í ljósi þess að það þarf að ljúka málinu fyrir áramótin. Við höfum ekki mikinn tíma til að ljúka meðferð þess. Það hefði verið æskilegt, eins og ég lagði til í haust við umræðu í þinginu, að hægt hefði verið að setja málið í eitthvert ferli milli þinga þannig að hægt hefði verið að vinna að því áfram í stað þess að við komum að því núna og erum enn í þeirri stöðu, eins og kemur fram í greinargerðinni, að það hafi verið haldið áfram samtali milli samtaka á vinnumarkaði og stjórnvalda en ekki náðst neitt breiðara samkomulag í því samtali. Það er vissulega bagalegt.

Það eru lagðar til verulegar breytingar. Í grundvallaratriðum er ég sammála markmiði breytinganna, þ.e. að jafna lífeyrisréttindi milli almenna markaðarins og opinbera markaðarins. Ég er sammála þeirri grundvallarbreytingu að eðlilegt sé að lífeyrisréttindi ráðist ekki af því hvar maður starfar og það eigi ekki að ráða því hvort maður skiptir um starf hvernig lífeyrisréttindum manns er háttað. Því markmiði er ég sammála. Ég held að allir hér inni átti sig líka á þjóðhagslegu mikilvægi málsins, að við horfum til þess að lífeyrissjóðakerfið verði í auknum mæli sjálfbært efnahagslega og fjárhagslega.

Varðandi þá gagnrýni sem hefur komið fram sem ég vitnaði til áðan, þ.e. að menn leggi ekki sama skilning í samkomulagið, er mikilvægt að við förum yfir hana í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Það er líka mikilvægt að við förum yfir þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá einstökum félögum innan heildarsamtaka. Ég tel raunar að það þurfi að skoða þau mál sérstaklega. Ég vitna þá til þeirra starfsstétta sem hafa verið að berjast fyrir sem hluta af sínum kjörum lækkun lífeyristökualdurs sökum líkamlega erfiðra starfa sem þær starfsstéttir gegna. Þarna er um að ræða nokkur aðildarfélög BSRB, þ.e. lögreglumenn, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, tollverði og fangaverði og Sjúkraliðafélag Íslands, eftir því sem ég best man. Þessi félög hafa lengi barist fyrir lækkun lífeyristökualdurs út frá þeim rökum. Auðvitað eru það gild rök þegar um er að ræða störf sem verða æ erfiðari eftir því sem líður á starfsævina, að taka tillit til þess. Ég velti fyrir mér, og kannski kemur það fram í greinargerð, ég fann það þó ekki, hvort ekki sé eðlilegt að setja málefni þessara hópa í einhverja sérstaka skoðun. Ég mælist til þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd skoði sérstaklega hvort megi ekki setja þau málefni í sérstaka skoðun.

Nú vitum við að það eru líka stéttir, ekki bara hjá hinu opinbera heldur líka á hinum almenna markaði, sem nákvæmlega sömu rök eiga við um. Það kallar kannski á heildarendurskoðun á því hvernig við horfum til lífeyristökualdurs. Við höfum talað fyrir því að lífeyristökualdurinn verði sveigjanlegri. En þarf ekki að hafa í huga að störf eru mjög miserfið eftir því sem við eldumst? Hér geta þingmenn verið langt fram eftir öllum aldri án þess að það hafi veruleg áhrif á þá, en það á kannski annað við um þá sem eru t.d. í sjúkraflutningum.

Síðan vil ég nefna það sem hefur líka komið fram í þeim stuttu umræðum sem hafa verið, sem er kjarajöfnunin og launajöfnunin. Það er ekkert óeðlilegt að ýmis stéttarfélög eða félög innan samtakanna setji spurningarmerki við þá vinnu. Það hefur nú þegar komið fram í þessari umræðu að menn eru ekki einu sinni á eitt sáttir um það hver launamunurinn er. Það kom fram á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar í morgun þar sem við fengum kynningu á frumvarpinu frá fjármálaráðuneytinu að launamunur milli almenna markaðarins og ríkisins væri t.d. mun minni en milli ríkisins og sveitarfélaga. Þar spilaði inn í ólík menntun, þ.e. algengi menntunar annars vegar hjá starfsmönnum ríkisins og hins vegar hjá starfsmönnum sveitarfélaga og síðan hjá starfsmönnum á almennum markaði. Það er erfitt að bera saman launamun eingöngu milli vinnuveitenda, það þarf líka að hafa aðrar breytur í huga. En þó var því kastað fram að gera mætti ráð fyrir launamun þannig að starfsmenn ríkisins væru fyrir neðan hinn almenna markað að einhverju meðaltali um 5% en síðan væri meiri munur milli hins almenna markaðar og sveitarfélaganna. Um þessi prósentustig öll og um reikningsaðferðirnar hafa menn ekki verið á eitt sáttir. Hæstv. ráðherra sagði áðan að mikilvægt væri að kalla á okkar besta fólk inn í þá vinnu. Auðvitað myndi ég vilja sjá í ljósi þeirra mörgu ára sem þetta samtal hefur staðið yfir, allt frá 2011, að þarna værum við komin með eitthvert skilgreint vinnulag um það hvernig við ætlum að meta jöfnunina á kjörunum og laununum þar sem við værum jafnvel búin að ná einhverjum „konsensus“ eða samkomulagi um það hver þessi munur væri og hvernig ætti að meta hann. Við þurfum auðvitað að bera saman sambærileg störf milli vinnuveitenda. Það er ekki hægt að skella bara fram meðaltölum, þau segja svo litla sögu. Að sjálfsögðu hefði maður viljað sjá samhliða þessu frumvarpi að fyrir lægi eitthvert vinnulag um hvernig við ætluðum að gera þetta, hvernig við ætlum að ráðast í jöfnun á kjörum og launum. Það er sú óvissa sem vekur spurningar hjá mörgum af þeim sem hafa verið að senda inn umsagnir. Mér sýnist á því að skoða umsagnir sem voru veittar um þetta frumvarp í síðustu lotu að þetta sé það sem brenni á langflestum sem senda inn umsagnir, áhyggjur af því hvernig eigi að standa að þessari jöfnun. Það væri mjög æskilegt ef við fengjum frekari botn í það.

Ég ætla ekki að halda lengri ræðu, enda held ég að mjög margt af því sem ég sagðir í fyrri umræðum á síðasta þingi hafi í raun og veru komið þar við sögu. En síðan vil ég segja að það er aldrei gott að vera að gera grundvallarkerfisbreytingar á stuttum tíma. Það er þó gott að það gafst tími til að fá umsagnir við þetta mál í fyrri umferð hér á þinginu en nú er búið að kjósa nýtt þing og ný nefnd tekur við málinu, sem hefur ekki fjallað um málið áður. Það er aldrei þægilegt að vera að gera grundvallarkerfisbreytingar á hlaupum. Sérstaklega þegar um þær ríkir ekki fullkomin sátt. Hins vegar er það afstaða mín að við munum greiða fyrir þessu máli eins og framast er unnt og leggja okkar af mörkum í þeirri vinnu sem þar þarf að ráðast í. En helst hefði maður viljað sjá þessi áhyggjuefni, ég hef nefnt lífeyristökualdur tiltekinna stétta, ég hef nefnt vinnulag í kringum launa- og kjarajöfnun, maður hefði viljað sjá einhvern botn í þeim álitamálum þannig að við værum ekki að afgreiða málin hér og síðan eftir fimm ár, þegar ekkert hefur áunnist í því að jafna kjörin og menn eru enn jafn ósammála um hver munurinn sé milli almenna markaðarins og hins opinbera, þá hafi ekkert gerst. Auðvitað vildi maður hafa frekari fullvissu um hvernig ætti að standa að því áður en þetta mál verður afgreitt en kannski skýrist það í meðförum þingsins. Ég ætla að leyfa mér að vona það og að við tökum á þessum spurningum í nefndarstarfinu þar sem við munum fjalla um málið.