146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[12:16]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um að framlagning þessa máls hefði mátt vera með betri hætti. Við fengum það í hendur klukkan níu í gærkvöldi og byrjum umræðu á fundi klukkan hálfellefu. Að því sögðu las ég þetta uppi í rúmi áður en ég fór að sofa í gærkvöldi. Þetta lagðist ágætlega í mig og ég svaf vært eftir að hafa gluggað í það en rakst á nokkur atriði sem mig langar að gera að umtalsefni, án þess að ætla einu sinni að þykjast hafa sett mig inn í allt sem hér stendur.

Þar er fyrst að telja framlag til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Ég stóð í þeirri meiningu að þetta frumvarp væri hugsað til að taka á ófyrirsjáanlegum ráðstöfunum í fjármálum. Þessi viðbótarfjárhæð til túlkaþjónustu í daglegu lífi er árviss viðburður. Þetta er eins og haustskip í ríkisfjármálunum, að ríkisstjórn Íslands setjist niður og ákveði að veita viðbótarfé inn í þennan sjóð. Það þarf að hætta því. Árið 2011 voru samþykkt lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Með því var döff fólk viðurkennt sem fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Það að þurfa alltaf að skafa upp einhverjar smáupphæðir til að bjarga þessum sjóði til að heyrnarlausir og heyrnarskertir geti tekið fullan þátt í daglegu lífi er til skammar. Að leggja þetta fram sem ófyrirséð útgjöld er bara kjánalegt, engum til sóma.

Þá vil ég fletta aftur að öllu stærri stofnun, Landspítalanum. Þar er gerð tillaga um 100 milljóna kr. fjárveitingu vegna aukins álags. Mér finnst þetta eiginlega fyndið. Þetta er stofnun sem á fjárlögum yfirstandandi árs fær 51 milljarð, stofnun þar sem forstjóri talar um að vanti 5,5 milljarða bara til að halda dampi. Ég veit ekki hvort dugi að segja að þetta sé varla upp í nös á ketti, ég held að við þurfum eitthvað nefstærra dýr til að lýsa þessu. 100 milljónir í þessu samhengi er nánast ekki neitt fyrir stofnun eins og Landspítalann.

Þá vil ég gera athugasemd við að í þessum lið sé sérstaklega tiltekið að þetta sé vegna álags vegna fjölda hælisleitenda og aukningar erlendra ferðamanna. Ég held að þeir 5,5 milljarðar sem Landspítalann vantar sé ekki vegna hælisleitenda. Ég held að það að víkja orðum að því í þessum texta sé ekki til sóma. Landspítalinn á að gera vel við alla sem í landinu eru. Hann á að lækna án þess að flagga því hvaða stöðu fólk hefur. Hælisleitendur eru viðkvæmur hópur sem við eigum að sinna vel. Landspítalinn er stór og mikilvæg stofnun sem við eigum að sinna miklu betur og það að vera með smánarlega upphæð og telja til þennan viðkvæma hóp sérstaklega þykir mér hvorugt með góðum brag.

Þá langar mig að nefna eitt lítið smáatriði sem ég rak augun í undir lið umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem er fyrsti liðurinn, Ýmis verkefni. Þar er sótt um 3 milljóna kr. framlag til að hefja formlega vinnu við undirbúning fyrir tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO. Þetta er flokkað undir verkefnastyrki til frjálsra félagasamtaka. Ég stóð í þeirri meiningu að bæði ráðuneytið og Vatnajökulsþjóðgarður væru undir regnhlíf hins opinbera, ég kannast ekki við að þetta séu frjáls félagasamtök. Nefndin myndi kannski líta á það hvort hér sé verið að sækja um framlag, í þágu máls sem ég styð heils hugar, eða sækja pening í vitlausan vasa hjá fjárveitingavaldinu.