146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[10:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að þessar stuttu atkvæðaskýringar sýni hversu mikið þyrfti að ræða þetta mál ef menn ætluðu að koma því í framkvæmd. Þetta er eignarskattur, hann er ekki á tekjur. Síðast þegar þessi skattur var var hann settur á tímabundið af vinstri stjórninni. Hann kom þannig út að þeir sem borguðu hann mest voru eldri borgarar sem mótmæltu því hástöfum og fóru í mál. Niðurstaða dóms Hæstaréttar var sú að þarna væri um tímabundinn skatt að ræða. Í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við eru t.d. ákvæði um að ekki sé heimilt að skattleggja án þess að tekjur séu fyrir hendi en þess voru dæmi að menn þurftu að selja eignir sínar til að greiða skattinn.

Það er erfitt að ná í þá allra ríkustu. Þeir geta farið til útlanda, og hafa svo sannarlega gert það, til að komast undan sköttum. Aðalatriði málsins er að hér erum við með risamál, eignarskatt, sem við höfum ekki haft góða reynslu af. Við getum ekki klárað svona mál eða samþykkt það á þessum hraða. Það sér hver einasti maður.