146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel hv. þingmann ekki síður hokna af reynslu en þá sem hér stendur. Hún veit eins og ég að það getur oft verið þrautinni þyngra að ná saman á þingi. Við höfum séð að það hefur ekki verið létt verk núna. En sérstakar aðstæður hafa gert að verkum að allir hafa verið reiðubúnir í slíkt samtal. Þess vegna hef ég stundum vitnað til reynslu minnar af því að vera í minnihlutastjórn um stutt skeið og svo aftur um stutt skeið þótt það væri ekki endilega með vilja gert. Sú reynsla gerði að verkum að ég fór að horfa öðrum augum á það. Ég man að hv. þingmaður var þá í stjórnarandstöðu en reyndist eigi að síður mjög góður samstarfsaðili þegar kom að málum sem þá heyrðu undir allsherjar- og menntamálanefnd. Það getur verið góður lærdómur fyrir þá sem fara með framkvæmdarvaldið á hverjum tíma að þurfa að eiga samtal við þingið um mál til að koma þeim í gegn. Það gerir að verkum að málin verða alls ekki nákvæmlega eins og maður sjálfur hefði viljað hafa þau en þau verða kannski ekkert verri fyrir vikið til lengri tíma litið.

Þetta ætti auðvitað líka að vera hægt í tilfelli meirihlutastjórnar ef hinn pólitíski vilji væri til staðar. En hins vegar sjáum við að meirihlutaræðið hefur verið óskaplega ríkt ef við horfum til þingsögunnar, þ.e. að taka málin í gegn með meiri hluta af því að það er hægt og af því að hitt tekur jú alltaf miklu lengri tíma og þá eru málin ekki nákvæmlega eins og maður sjálfur vill hafa þau.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um þetta vinnulag, það að þurfa að eiga samtal milli flokka hlýtur í fyrsta lagi yfirleitt að gera málin betri fyrir allan almenning þó að þar eigi sér stað ákveðnar málamiðlanir, sérstaklega ef um er að ræða grundvallarbreytingar á kerfum eins og við höfum stundum séð keyrðar hér í gegn í miklu offorsi í gegnum meirihlutaræði.