146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:06]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða spurningu. Ég verð eiginlega að svara henni neitandi. Ég tel að svona vinna, að fara í að sækja upplýsingar frá hverri stofnun fyrir sig, sé í rauninni neyðarúrræði. Þetta neyðarúrræði kemur til af því að mjög snemma í fjárlagaferlinu var uppi sú spurning hvort þær fjárveitingar sem voru til umræðu væru nægar til að sinna því sem þyrfti til að gera vel.

Þegar við fórum á stúfana og spurðum hreinlega að því sem, eins og ég segi, er ekki það sem við vildum helst gera komumst við að sjálfsögðu að því að samkvæmt stofnununum sjálfum var það kannski ekki. Mönnum ber ekki endilega saman um hvaða leið sé best að fara en eitt af mikilvægustu stefnumálum Pírata fyrir kosningarnar, sem nú eru afstaðnar, var að byggja upp gott heilbrigðiskerfi á landinu. Þetta var þá þegar orðið áherslumál hjá okkur og mikilvægt fyrir okkur að taka mjög vel á þessum málaflokki þó að það sé alveg klárlega rétt hjá hv. þingmanni að það er fullt af öðrum málaflokkum sem má alls ekki gleyma í þessu samhengi og það er alls ekki ætlun okkar að gera það.