146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Þrátt fyrir mjög góða samvinnu í nefndinni vannst gríðarlega lítill tími til að fara yfir fjáraukann. Allur tíminn sem nefndin notaði fór í þessar samningaviðræður. Því gagnrýnir 2. minni hluti meðferð fjárlaganefndar á frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2016. Málið var afgreitt úr nefnd með lágmarkskynningu frá fjármálaráðuneytinu og lágmarksumfjöllun um þær breytingartillögur sem standa utan sameiginlegra breytingartillagna fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 og við fjáraukalagafrumvarp það sem er fjallað hér um.

Í 43. og 44. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, sem nú hafa verið felld úr gildi en eiga við þetta fjáraukalagafrumvarp segir:

„Ef þörf krefur skal í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir.

Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.“

Enn fremur má benda á að í nýsamþykktum lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, helst sú meginhugsun laganna að fjáraukalögum á ekki að beita nema í undantekningartilfellum eða eins og segir í 26. gr. sem enn skerpir á hugsun eldri laga, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum. Í fylgiriti með frumvarpi til fjáraukalaga skal skýra frá skiptingu fjárveitinga til ríkisaðila og verkefna, sbr. 19. gr.

Við framlagningu breytingartillagna við frumvarp til fjáraukalaga á Alþingi skal liggja fyrir mat á áhrifum þeirra á heildarafkomu ríkissjóðs, skuldbindingar hans og aðrar forsendur fjármálaáætlunar.“

Meginhugsunin í eldri og nýrri lögum er því sú að aukinna fjárheimilda er ekki leitað nema um ófyrirséð atvik sé að ræða.

Eins og nefnt var í inngangi fékk nefndin lágmarkskynningu á fjáraukalagafrumvarpinu og mjög takmarkaðan tíma til að rýna einstakar greinar þess. 2. minni hluti óskaði engu að síður eftir minnisblaði frá innanríkisráðuneytinu um fjárlagaliði þjóðkirkjunnar og Kristnisjóðs þar sem í greinargerð með frumvarpinu er vísað til kirkjujarðasamkomulagsins sem ástæðu fyrir hækkun framlaga til viðkomandi liða. 2. minni hluti óskaði eftir útreikningum og ítarlegri greinargerð sem útskýrði þá hækkun sem og upplýsingum um aðra samninga eða skuldbindingar á milli hins opinbera, ríkisins, og þjóðkirkjunnar, gildistíma þeirra og forsendur sem gætu leitt til útgjalda fyrir ríkissjóð. Jafnframt var óskað eftir mati ráðuneytisins á því hversu skuldbindandi þessir samningar væru og rökstuðningi fyrir þeirri skuldbindingu. Það var leitað eftir útreikningum.

Í svari ráðuneytisins er að mati 2. minni hluta ekki að finna nægilega góð svör við fyrrgreindum spurningum. Í það minnsta fylgdu svarinu ekki þeir útreikningar sem óskað hafði verið eftir. Því var 2. minni hluta ekki unnt að meta hvort fjárbeiðnin væri í samræmi við heimildir laga um að útgjöldin þyrftu að vera ófyrirséð. Þar sem um gamlan samning er að ræða á 2. minni hluti erfitt með að sjá, miðað við fyrirliggjandi gögn, að útgjöld samkvæmt honum teljist ófyrirséð. Meðal annars kemur fram í svarinu að árið 2015 hafi þjóðkirkjan hafnað því að taka á sig þá skerðingu sem henni var gert að taka á sig í hruninu. Því er vandséð að um óvænt og ófyrirséð útgjöld hafi verið að ræða á árinu 2016.

Mig langar að lesa úr svari innanríkisráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Kirkjujarðasamkomulagið er samningur ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 1997 um að kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir, að frátöldum prestssetrum, verði eign ríkisins gegn því að ríkið greiði til framtíðar laun tiltekins fjölda presta og annarra starfsmanna kirkjunnar, samanber einnig viðbótarsamning frá 1998 um frekari útfærslu þess. Skuldbinding ríkisins samkvæmt samkomulaginu var í kjölfarið færð í lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, samanber 60. gr.“

Ég sé ekki að sú heimild sem er verið að leita eftir geti verið ófyrirséð.

Í því minnisblaði sem innanríkisráðuneytið sendi sem svar við fyrirspurninni var ekki að finna fullnægjandi upplýsingar og mun ég leita leiða til að fá fullnægjandi svör seinna.