146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[20:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um fjáraukalagafrumvarpið sem er í sjálfu sér partur af samkomulagi sem gert hefur verið á milli allra sjö stjórnmálaflokkanna á þingi. Það er afrek út af fyrir sig að það hafi náðst á milli jafn ólíkra stjórnmálaafla og hér sitja.

Ég þakka nefndarmönnum samstarfið um þessa vinnu í nefndinni. Við Vinstri græn greiðum að sjálfsögðu atkvæði með breytingartillögunum en sitjum svo hjá við fjáraukalagafrumvarpið því að þetta er auðvitað breyting á því frumvarpi sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lagði fram fyrr á árinu.