146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

[16:06]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Þetta er búin að vera ágætlega gagnleg umræða. Menn eru að nálgast efnisatriði skýrslunnar. Ég vil þakka málshefjanda en ég vil þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra alveg sérstaklega fyrir hans skýru svör. Það er alveg ljóst hvar hjarta hans slær í þessum efnum.

Það sem ég held hins vegar að við þurfum að ræða á þingi er hvaða viðbrögð þessi skýrsla kallar á. Það er alveg ljóst, og þar erum við hv. þm. Smári McCarthy sammála, að við þurfum frekari gagnavinnu. Við þurfum að auka gagnaskil og gagnasöfnun er varðar fjármagnsflutninga. Það liggur fyrir. Myndin sem við höfum er mjög takmörkuð og takmörkuð mynd gefur oft villandi mynd. Í öðru lagi kallar hún á að stofnanir sem fást við skatteftirlit meti efni skýrslunnar og líklegast er rétt að þær stofnanir gefi hinu háa Alþingi sitt mat. Í þriðja lagi er alveg ljóst að skýrslan kallar á frekari stefnumótun af hendi stjórnvalda. Sú vinna er þegar í farvatninu.

Eitt vekur auðvitað athygli mína í þessari skýrslu. Allur kaupskipafloti Íslands er skráður annars staðar en hér á landi. Við ættum nú að velta því fyrir okkur hvernig í ósköpunum það getur gerst og hvað getum við hér á þingi gert til að breyta regluverki og hugsanlega skattumhverfi og öðru til þess að við sjáum hér aftur íslenskan kaupskipaflota, skráðan hér á Íslandi.

Í fimmta lagi er auðvitað rétt að horfa til þess sem nefndin nefnir alveg sérstaklega, (Forseti hringir.) það er að endurmeta tvísköttunarsamninga sem eru á milli Íslands og sérstaklega Lúxemborgar og Hollands. Ég vænti þess að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi kannski (Forseti hringir.) tíma til þess að svara hvort það komi til greina af hans hálfu að endurskoða þessa tvísköttunarsamninga.