146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Í gær mátti lesa í ýmsum erlendum fjölmiðlum, svo sem Independent, að hollenskur ráðherra að nafni Lilanne Ploumen hefði lagt til að Holland hefði frumkvæði að því að stofna sjóð til að styðja við starfsemi sem snýr að heilsu kvenna, fræðslu um getnaðarvarnir og fóstureyðingar. Þetta er vitanlega viðbragð við tilskipun forseta Bandaríkjanna, Donalds Trumps, um bann við því að Bandaríkin styrki hjálparsamtök sem veita konum upplýsingar um fóstureyðingar. Að banna fóstureyðingar eða veita ekki faglegar upplýsingar um þær mun ekki leiða til þess að fóstureyðingum fækki en mun hins vegar stofna lífi og heilsu kvenna um allan heim í mikla hættu. Þetta skiptir líka máli á Íslandi því að meðal áherslna Íslands þegar kemur að þróunarsamvinnu er aukið kynjajafnrétti og valdefling kvenna. Fátt er meira valdeflandi en að ráða yfir eigin líkama.

Mér finnst þess vegna að við á Alþingi eigum að fylgjast náið með þróuninni á þessum sjóði Lilanne Ploumen og styðja eftir atvikum við hann og/eða veita aukið fjármagn í þá þætti þróunarsamvinnu sem við erum nú þegar þátttakendur í og lúta sérstaklega að heilsu kvenna. Hér held ég að Alþingi geti haft áhrif. Við eigum að beita þessum áhrifum og ég mun taka þetta mál upp við hæstv. (Forseti hringir.) utanríkisráðherra þegar hann kemur á fund utanríkismálanefndar um það hvernig við getum beitt okkur.


Efnisorð er vísa í ræðuna