146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fjallað um eignarhald ríkisins á viðskiptabönkum. Þar er m.a. sagt að það verði skipulega haldið þannig á málum að dregið verði úr eignarhaldinu, dregið úr þátttöku ríkisins á fjármálamarkaði. Þar segir að áhersla verði lögð á opið og gagnsætt ferli en líka stefnt að því að almenningur fái tiltekinn eignarhluta afhentan endurgjaldslaust.

Ég vona að við eigum eftir að sjá þessa stefnu kristalíserast hér á næstu mánuðum. Það er sanngjarnt og eðlilegt að almenningur eignist með beinum hætti hlut í íslensku viðskiptabönkunum. Ég bendi á að frá árslokum 2009 og fram til loka þriðja ársfjórðungs á síðasta ári var virðisaukning í íslensku viðskiptabönkunum þremur um 320 milljarðar. Stór hluti af þessari virðisaukningu er vegna endurmats á eignum bankanna.

Íslenskur almenningur, líkt og ríkissjóður og fyrirtæki, varð fyrir miklum búsifjum við fall viðskiptabankanna 2008. Það er sanngjarnt og eðlilegt að almenningur fái hlutdeild í þeirri gríðarlegu virðisaukningu sem átt hefur sér stað í bankakerfinu. Ég vonast til þess að við þingheimur berum gæfu til þess að taka höndum saman (Forseti hringir.) og tryggja að þetta nái fram að ganga. Ég segi: Ekkert mun eyða tortryggni í garð banka og fjármálakerfisins annað en bein eignaraðild almennings að fjármálakerfinu. Um þetta eigum við öll að taka höndum saman.


Efnisorð er vísa í ræðuna