146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:04]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari sem lögð er fram í samræmi við ákvæði laga um Stjórnarráð Íslands er leitað eftir stuðningi Alþingis við fyrirhugaða breytingu á heiti og fjölda ráðuneyta í Stjórnarráðinu. Breytingin felur í sér að í stað innanríkisráðuneytis komi annars vegar dómsmálaráðuneyti og hins vegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Með breytingunni fjölgar ráðuneytum úr átta í níu.

Frú forseti. Sterk söguleg hefð er fyrir sérstökum ráðuneytum dómsmála annars vegar og samgöngumála hins vegar og eiga slíkar stjórnarskrifstofur rætur sínar að rekja allt til stofnunar Stjórnarráðsins árið 1904. Sú skipan mála byggir á efnislegri sérstöðu þeirra stjórnarmálefna sem um ræðir og á það sérstaklega við um eðli þeirra stjórnarmálefna sem tilheyrt hafa dómsmálaráðuneytinu, enda er það svo að flest lönd eiga sér sérstakt dómsmálaráðuneyti, til að mynda öll hin Norðurlandaríkin.

Meginsjónarmiðin að baki breytingunni eru:

1. Að skýra skipulag og verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins í samræmi við það sjónarmið að eðlislík málefni skuli heyra undir eitt og sama ráðuneytið.

2. Að skerpa á pólitískri forystu í þeim mikilvægu málaflokkum sem um ræðir.

3. Að tryggja betri yfirsýn yfir þau umfangsmiklu lögbundnu verkefni sem nú heyra undir innanríkisráðuneytið.

4. Að auka þekkingu og getu stjórnsýslunnar til að sinna þeim verkefnum sem um ræðir.

Það er sannfæring mín að breytt skipulag samkvæmt framangreindu muni styrkja stjórnsýsluna á umræddum sviðum og svigrúm ráðherra til að rækja stefnumótandi hlutverk sitt, þar með talið til að fylgja eftir stefnumálum ríkisstjórnar, ekki bara þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, heldur komandi ríkisstjórna sömuleiðis.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar felur í sér margvísleg stefnumarkandi áform sem varða þá málaflokka sem falla undir núverandi innanríkisráðuneyti, t.d. varðandi uppbyggingu löggæslu, landamæraeftirlit, ákæruvald, dómstóla, málefni útlendinga, samgöngumál og uppbygging innviða, öryggi vegfarenda, byggðamál og fjarskiptamál, svo dæmi séu tekin. Mikilvægt er að haga skipulagi Stjórnarráðsins þannig að sem mestur og bestur árangur megi nást í þessum mikilvægu málum um leið og gæði stjórnsýslunnar eru bætt.

Ör þróun og breyting hefur einnig orðið í málaflokkum innanríkisráðuneytisins frá því að ráðuneytinu var komið á fót 1. janúar 2011. Ný og brýn verkefni hafa kallað á sérstaka forgangsröðun og athygli ráðherra, ekki síst á þeim sviðum sem tilheyra munu nýju dómsmálaráðuneyti. Málefni tengd landamærum hafa verið til mikillar umræðu og skoðunar á vettvangi Evrópusamvinnunnar. Þessu höfum við fylgst með í fréttum undanfarin ár, það hafa verið ítrekaðir fundir, ekki bara innan Schengen-samstarfsins, heldur í víðara samhengi og margvísleg önnur verkefni þar fram undan. Aldrei hafa eins margir flóttamenn leitað til Evrópu og á Íslandi hafa aldrei eins margir sótt um alþjóðlega vernd og á síðasta ári.

Endurskipulagning dómskerfisins stendur yfir eins og menn þekkja. Það er afar mikilvægt að vel takist til í þeim breytingum sem þar eru að eiga sér stað.

Hvað innviði varðar hafa aðhaldsaðgerðir síðustu ára leitt til þess að nauðsynlegt er að hefja markvissa uppbyggingu sem þó kallar áfram á stífa forgangsröðun og nýjar leiðir sömuleiðis til fjármögnunar innviða. Flutningur byggðamála til ráðuneytis samgöngu- og sveitarstjórnarmála gefur einnig mörg tækifæri til nýrrar stefnumótunar og þróunar á því sviði. Öll þessi verkefni krefjast athygli ráðherra og sérhæfðs ráðuneytis þeim við hlið.

Loks er til þess að líta eins og ég minntist á áður að framangreindar breytingar munu færa skipan mála hér á landi nær því skipulagi sem er við lýði annars staðar á Norðurlöndum. Er það mat mitt að breytingarnar muni styðja við þátttöku íslenskra stjórnvalda í alþjóðlegu samstarfi á þessum sviðum.

Frú forseti. Innanríkisráðuneytið hefur starfað í núverandi mynd frá 1. janúar 2011 eins og áður hefur komið fram. Rökin að baki sameiningu þessara tveggja ráðuneyta, ráðuneyta dómsmála og samgöngumála, voru m.a. viðleitni þáverandi stjórnvalda til hagræðingar í ríkisrekstri í kjölfar efnahagshrunsins og var þar öðru fremur horft til hagræðingar og mögulegrar samlegðar í stoðþjónustu ráðuneytanna.

Við framkvæmd þeirra breytinga sem nú eru áformaðar verður leitast við að halda rekstrarlegu hagræði að því marki sem framast er unnt. Er gert ráð fyrir að ráðuneytin tvö munu áfram samnýta ýmsa þá stoðþjónustu sem nú er fyrir hendi. Uppskipting innanríkisráðuneytisins hefur þó óhjákvæmilega í för með sér rekstrarlegan aðskilnað sem kann í einhverjum tilvikum að hafa í för með sér aukinn rekstrarkostnað. Ljóst er til að mynda að ráðuneytisstjórum mun fjölga um einn við þessa breytingu, auk þess sem greina þarf að málaskrár ráðuneytanna og fjármálalegan rekstur. Á móti þessu kemur að unnið er að því í Stjórnarráðinu að efla sameiginlega stoðþjónustu fyrir öll ráðuneyti. Hefur undirbúningur þess staðið í nokkurn tíma og hafa fyrirhugaðar breytingar það að markmiði að efla þjónustu, auka framleiðni, skilvirkni og kostnaðarhagræði til langs tíma fyrir öll ráðuneyti Stjórnarráðsins sem og að efla kjarnastarfsemi þeirra og sérfræðiþekkingu.

Áætlað er að verkefnisstjórn um sameiginlega stoðþjónustu leggi fram tillögur sínar í vor þar sem áhersla verður lögð á að veita fjölbreyttari og samræmdari þjónustu, nýta fjármuni betur og tengja betur saman þá sem vinna lík verkefni í ráðuneytunum. Þá stendur einnig yfir vinna í Stjórnarráðinu sem miðar að því að auka mjög sameiginleg útboð og innboð allra ráðuneyta og stofnana þeirra. Hvort tveggja mun vega á móti auknum rekstrarkostnaði sem leiða kann af uppskiptingu innanríkisráðuneytisins.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við hugsum málið einmitt í stærra samhengi en bara fyrir einstök ráðuneyti. Það er eðlilegt að upp komi spurningar um rekstrarhagræði þegar einu ráðuneyti er skipt upp í tvö og menn spyrja sig: Hvar gætum við sótt aukið hagræði með því að fella saman slíkar einingar eins og gert var á sínum tíma? Ég held að þar séu menn kannski að horfa aðeins of þröngt á málið. Við þurfum annars vegar að ná að skerpa á þeim áherslum sem við viljum ná fram í stjórnkerfinu, byggja upp sérfræðiþekkinguna, koma pólitískum áherslumálum í framkvæmd og að verkaskiptingin sé þannig að eðlislík mál séu felld saman og veitt skýr forysta. Hins vegar þegar kemur að rekstrinum þá eigum við ekki bara að líta til þess hverju væri hægt að ná fram í samlegð með því að fella ólíka málaflokka saman undir eitt ráðuneytisheiti. Við eigum að horfa á það mál í miklu stærra samhengi. Eins og ég hef komið inn á þá eigum við að horfa á það þvert yfir öll ráðuneytin og undirstofnanirnar. Við eigum t.d. að velta því fyrir okkur hvort við eigum að nýta oftar það úrræði sem lögin bjóða upp á í dag að koma á fót ráðuneytisstofnunum sem sannarlega mundi geta boðið upp á þetta rekstrarlega hagræði ef það er það sem við teljum að við sækjumst eftir í frekari mæli en nú á við. Þá værum við sem sagt að taka nær einstökum ráðuneytum þær stofnanir sem eru starfandi á verkefnasviði viðkomandi ráðuneyta og myndum geta náð fram töluvert mikilli hagræðingu í rekstrarlegum þáttum þrátt fyrir að ákveðin armslengd væri áfram til staðar.

Ég hvet menn sem sagt til þess að horfa á þessi mál í stærra samhengi en því sem tengist einstaka ráðuneytum vegna þess að við getum unnið svo miklu víðar annars staðar í stjórnkerfinu hjá okkur að rekstrarhagræði.

Frú forseti. Gert er ráð fyrir að stjórnarmálefni innanríkisráðuneytisins muni skiptast á milli dómsmálaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og það verði með sama hætti og þau skiptast nú á milli dómsmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra samkvæmt forsetaúrskurði nr. 2/2017, um skiptingu starfa ráðherra, samanber forsetaúrskurð nr. 1/2017, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þannig að það liggur í sjálfu sér fyrir nú þegar hvaða verkefni munu heyra undir hvort ráðuneyti. Það kemur þegar fram í forsetaúrskurði um skiptingu verkefna milli ráðherranna. Þetta er um öll þessi meginverkefni ráðuneytanna.

Það er mikilvægt að halda því til haga að ekki er gert ráð fyrir að breytingar verði á högum starfsmanna sem nú vinna í innanríkisráðuneytinu við þessar breytingar. Munu starfsmenn flytjast til hinna nýju ráðuneyta í samræmi við verksvið þeirra og mat á umfangi verkefna hvors ráðuneytis. Þetta er að sjálfsögðu afskaplega mikilvægur þáttur.

Þessi tillaga til þingsályktunar er orðuð með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar, með vísan til 1. mgr. 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, að styðja fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem felur í sér að í stað innanríkisráðuneytis komi annars vegar dómsmálaráðuneyti og hins vegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.“

Sem sagt, við ræðum hér um að með samþykki þessarar tillögu sé fenginn stuðningur Alþingis til þess að framkvæma þessa breytingu. Síðar er það rakið í þingsályktunartillögunni hvaða meginsjónarmið búi að baki, hvað verði um sameiginlega stoðþjónustu, hvernig skipting stjórnarmálefna verði milli ráðuneytanna og loks er sagt að það sé stefnt að því að nýr forsetaúrskurður um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneytinu með þeirri breytingu sem gerð er grein fyrir í tillögunni komi til framkvæmda eins fljótt og auðið er eftir að Alþingi hefur lokið umfjöllun sinni um málið. Það er einmitt uppleggið hér. Það er áformað að ný ráðuneyti taki til starfa eins fljótt og auðið er eftir að Alþingi hefur lokið umfjöllun sinni um málið. Formleg ákvörðun þar um verður tekin með útgáfu forsetaúrskurðar um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti og breytingu á forsetaúrskurði eins og ég hef hér verið að rekja.

Þegar Alþingi fjallaði síðast um þessi málefni þá urðu nokkrar breytingar í meðförum þingsins á því frumvarpi sem rataði hingað inn, en af hálfu nefndar sem fjallaði um málið á þeim tíma var lögð áhersla á það að þingið myndi eftir því sem aðstæður leyfðu hraða meðferð mála af þessum toga í þinginu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessari tillögu verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og síðari umræðu að aflokinni þessari.