146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[11:20]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég tek fagnandi öllum hugmyndum um að skerpa á einstökum áherslum í Stjórnarráðinu með því að málaflokkar séu vistaðir á réttum stöðum. Við höfum breytt lögum þannig að slíka málaflokka er hægt að færa til án aðkomu þingsins, eins og dæmin sýna, og við höfum aðeins gert það með nýlegum forsetaúrskurði. Þetta skal vera mér til umhugsunar, hvort þetta eigi betur heima dómsmálaráðuneytismegin, en við göngum ekki út frá því, alla vega ekki að sinni.

Það kom (BirgJ: Flæði á milli.) síðan spurning um hvort við ætluðum að efla flæði milli ráðuneyta. Varðandi það vil ég segja alveg afdráttarlaust já, ekki aðeins vegna þess að hér starfa þrír flokkar saman í ríkisstjórn heldur ekki síður vegna þess að það er kjarnaatriðið í því stjórnskipulagi sem við erum með í dag þar sem í sjálfu sér eru ekki mörg skýr bein málefni sem heyra undir forsætisráðuneytið heldur er því ætlað að vera meira til verkstjórnar, (Forseti hringir.) að nýta ráðherranefndir til þess að draga saman mál sem heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti og eiga samráð í ráðherranefndum áður en mál rata inn í ríkisstjórn og síðan endanlega fyrir þingið. Þannig mun ég a.m.k. reyna að halda utan um mál í forsætisráðuneytinu.