146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:52]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við stígum stórt og ánægjulegt skref í dag þar sem þetta er í fyrsta sinn sem ríkisstjórn á Íslandi leggur fram fjármálastefnu í upphafi kjörtímabils, fjármálastefnu til næstu fimm ára sem byggist á ákveðinni varfærni, stöðugleika, festu, gagnsæi og síðast en ekki síst öryggi og framsýni. Við erum loksins að treysta umgjörð opinberra fjármála og innleiða nauðsynlegan aga í ríkisfjármálin.

Hér er horft til framtíðar og hér setjum við langtímamarkmið um bætta efnahagslega stöðu ríkissjóðs þar sem dregið er verulega úr skuldum hans og jafnframt forgangsraðað í þágu grunnstoða samfélagsins. Ólíkt því sem við höfum áður fengið að kynnast er ekki ráðgert að seilast dýpra ofan í vasa skattgreiðenda. Við ætlum að lækka skuldir og forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar án þess að leggja auknar byrðar á fólkið í landinu. Það á að vera sameiginlegt markmið okkar að nýta uppsveifluna í efnahagslífinu til að byggja upp til framtíðar. Þannig hefur það þó ekki alltaf verið. Við þekkjum fjölmörg dæmi á liðnum árum um skammsýna stjórnmálamenn sem hafa unnið að því að auka umsvif ríkisins á öllum sviðum, blása ríkisbáknið út burt séð frá því hvort á því var nokkur nauðsyn. Reikningurinn var síðan bara sendur næstu kynslóð, skattgreiðendum framtíðarinnar. Stjórnmálamenn hafa verið, og eru sumir hverjir enn, ósparir á annarra manna fé og telja ekkert athugavert við stóraukin og ósjálfbær útgjöld ríkissjóðs ár eftir ár.

Það er fagnaðarefni að nú, með fjármálastefnu hins opinbera til næstu fimm ára, sé sköpuð umgjörð til að horfa fram á veginn, til að gera vel í dag og að það sem gert er gagnist jafnframt framtíðarkynslóðum. Það þurfum við að einhenda okkur í að gera á fleiri sviðum stjórnmálanna. Þau eiga ekki einungis að snúast um þetta kjörtímabil, heldur um framtíðina.

Frú forseti. Staða ríkissjóðs er góð en hún er líka vandmeðfarin. Það er bjart fram undan svo lengi sem við fylgjum ábyrgri fjármálastefnu, ekki bara með okkar hag heldur hag framtíðarkynslóða að leiðarljósi. Skuldir dagsins í dag eru nefnilega skattar framtíðarkynslóða og það er ekki bara frasi heldur staðreynd. Þrátt fyrir hraðan viðsnúning á allra síðustu árum býr ríkissjóður enn við einhverja þyngstu vaxtabyrði í Evrópu. Þess vegna verðum við að leggja okkur öll fram til þess að draga úr skuldum ríkisins. Mikið verk er fyrir höndum. Við verðum t.d. að þora að horfa til sölu ríkiseigna sem mikilvægrar og ekki síður nauðsynlegrar leiðar til að grynnka á skuldum og lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Þannig yrði ríkissjóður betur í stakk búinn til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar á næstu árum þar sem allir eru sammála um að víða sé úrbóta þörf. Við hljótum öll að geta verið sammála um að útgjöldum ríkisins er ekki best varið í vaxtakostnað.

Með lægri ríkisskuldum skapast einnig aukið svigrúm til að lækka skatta, bæði á heimilin og fyrirtækin í landinu. Allt of lengi hafa stjórnmálamenn litið á skattgreiðendur sem óþrjótandi uppsprettu fjármagns. Því viðhorfi og þeirri vanvirðingu í garð vinnandi fólks þarf að eyða.

Helmingur þeirra þingmanna sem nú hafa tekið sæti á Alþingi er nýr. Nú á sér stað kynslóðabreyting þar sem ungu fólki er treyst fyrir krefjandi verkefnum. Ég vona að í krafti þessara umskipta munum við í frekara mæli sjá tækifæri í nýrri hugsun, að við leysum ekki verkefnin á sama hátt og gert hefur verið í áraraðir heldur stöldrum við og veltum fyrir okkur af alvöru hvert hið raunverulega hlutverk ríkisins er. Í því sambandi ætti ekki að vera neinn vafi um það að tryggja lögreglu og Landhelgisgæslu nægilegt fjármagn til að tryggja öryggi. Nýlegir og því miður jafnframt sorglegir atburðir í okkar þjóðfélagi hafa undirstrikað mikilvægi þess að vel sé búið að þessum aðilum enda ættu allir að vera sammála um að verkefni þeirra séu meðal þess að vera raunverulegt hlutverk ríkisins.

Virðulegi forseti. Íslendingar hafa, því miður, fengið að kynnast of mörgum og of miklum sveiflum í hagkerfinu. Okkur hefur tekist illa að tryggja stöðugleika og við virðumst of oft missa tökin, ekki síst þegar vel gengur. Áskorun okkar nú er að viðhalda þeirri góðu stöðu sem við búum við í dag og styrkja um leið þær stoðir sem velferð okkar og öryggi hvílir á. Útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu eru eiginlega hvergi hærri meðal þróaðra ríkja en á Íslandi. Ef enn skortir fé í viss verkefni, sem við erum sammála um að geri, hlýtur vandamálið að liggja í augum uppi. Það felst í rangri forgangsröðun og nýtingu þeirra fjármuna sem fyrir eru.

Það þarf kjark til að búa í haginn fyrir framtíðina, ekki síst þegar vel árar í hagkerfinu eins og nú. Það að sýna ábyrgð og festu er ekki alltaf fallið til vinsælda, til skemmri tíma litið, en til lengri tíma er það þó nauðsynlegt. Það er von mín að þessi ríkisstjórn standi undir þeirri ábyrgð sem henni er falin, vandi til verka og sinni því sem raunverulega skiptir máli, að halda hagkerfinu gangandi og skapa svigrúm fyrir atvinnulífið til að unnt sé að bæta hag og tryggja öryggi almennings. Sú fjármálastefna sem nú er lögð fram er meðal fyrstu skrefa af mörgum til þess.