146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

Lífeyrissjóður bænda.

67. mál
[16:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Greinin er nokkuð löng. Um er að ræða sérákvæði sem orðast þannig, með leyfi forseta:

„Nú andast sjóðfélagi sem orðinn var sjóðfélagi fyrir árslok 1983 og skipti ekki réttindum sínum í árslok 1983 með maka sínum og á þá eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum að loknum þeim greiðslutíma sem kveðið er á um í samþykktum til æviloka. Slíkur réttur miðast þó einungis við áunnin réttindi í sjóðnum í árslok 1983 án framreiknings. Við slit hjúskapar eða óvígðrar sambúðar sem tilkynnt var til sjóðsins samkvæmt eldri lögum skal áunnum réttindum sjóðfélaga, þau ár sem hjónabandið eða sambúðin stóð fram til ársloka 1983, skipt að jöfnu hafi þeim ekki áður verið skipt.“

Það má kannski nefna um leið að þar sem ekki er gert ráð fyrir framreikningi þá er þessi peningur frekar lítill í dag miðað við þá miklu verðbólgu sem verið hefur frá 1983, en engu að síður þarf að skoða þetta ákvæði.