146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

mengun frá kísilverum.

[14:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð eiginlega að halda áfram að vísa í fyrra svar. Það er auðvitað dálítið erfitt að koma að orðnum hlut, koma að því þegar kjörnir fulltrúar í Reykjanesbæ hafa í krafti síns umboðs, krafti umboðs sinna íbúa, fengið því framgengt að veita leyfi fyrir þessi kísilver. Ég hefði óskað að svo hefði ekki verið. Ég hefði óskað að íbúar í Reykjanesbæ hefðu kosið sér meiri umhverfisverndarsinna sem hefðu þá ekki hleypt þessu í gegn. En staðan er svona.

Kemur til greina að fella fjárfestingarsamninginn úr gildi? spyr hv. þingmaður. Ég hef svarað því til og geri aftur að ég verð að virða stjórnskipan landsins og þær ákvarðanir sem fyrri ríkisstjórnir hafa tekið í þessum efnum þótt það sé mér þvert um geð.

Íbúar á svæðinu vilja að sjálfsögðu og eiga rétt á hreinu lofti. Umhverfisstofnun er (Forseti hringir.) eins og áður sagði með þessa starfsemi í gjörgæslu og við fylgjumst vandlega með því með sóttvarnalækni hvort mengun fari yfir leyfileg mörk og munum grípa til ráðstafana ef svo verður.