146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[14:50]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Samband Íslands og Bandaríkjanna hefur verið sérstakt og sterkt í gegnum tíðina. Viðurkenning Bandaríkjanna á sjálfstæði íslenska lýðveldisins var lykilatriði við stofnun þess og fylgdu aðrar þjóðir í kjölfarið. Viðskipti og fjárfestingar hafa verið mikil í áranna rás og má til að mynda nefna 24% af öllum ferðamönnum sem koma hingað til lands eru Bandaríkjamenn og 8,4% af vöruútflutningi okkar fer inn á bandarískan markað. Varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 er í fullu gildi og hefur þjónað hagsmunum beggja ríkja og vera okkar Atlantshafsbandalaginu er eitt lykilatriði í nýrri þjóðaröryggisstefnu.

Eins og okkur öllum er kunnugt um er nýr forseti Bandaríkjanna tekinn við og boðar hann breytta stefnu er varðar komu flóttamanna til Bandaríkjanna, viðskiptasamninga og öryggis- og varnarmál. Hann leggur ríka áherslu á að öll stefnumótun miði að því að setja bandaríska hagsmuni í fyrsta sæti. Því er ekki undarlegt í ljósi þeirrar yfirburðarstöðu sem Bandaríkin hafa er varða stærð hagkerfis síns og svo þeirra áhrifa á öryggis- og varnarmál á heimsvísu að margir spyrji sig hvaða þýðingu þessi stefnubreyting hafi fyrir hagsmuni sinnar álfu eða viðkomandi þjóðríkis.

Að mínu mati þarf að skoða gaumgæfilega hvernig ný viðskiptastefna Bandaríkjanna kemur við íslenska hagsmuni og hvort viðskiptakjör kunni að versna vegna þessa. Greina þarf núverandi samninga og hvort einhver breyting kunni að verða er varðar aðgengi að bandarískum mörkuðum og viðskiptakjörum. Það sama á við um öryggis- og varnarmálin.

Ég vil taka það fram að ég hef verulegar áhyggjur af hinni tímabundnu tilskipun sem hefur það að leiðarljósi að banna ákveðnum þjóðum að koma til Bandaríkjanna. Slík útilokun kann að hafa þveröfug áhrif á viðkomandi þegna og jafnvel auka líkurnar á því að voðaverk séu framin.

Eins og margir hafa minnst á var okkur öllum verulega brugðið við það að (Forseti hringir.) Meisam Rafiei hafi ekki getað keppt á stórmóti í taekwondo. Ég fagna því verulega að íslensk stjórnvöld hafi tekið svona fast og örugglega á því máli og komið mótmælum á framfæri.

En það er afskaplega brýnt (Forseti hringir.) að því sé fylgt eftir og að við fylgjum því vel eftir hvernig hin breytta viðskiptastefna, breytta stefna er varðar komu flóttamanna (Forseti hringir.) og komu ákveðinna þegna frá ákveðnum löndum hefur á alþjóðastjórnmálin.