146. löggjafarþing — 20. fundur,  31. jan. 2017.

stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum.

[15:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir þessa umræðu. Það sem mér fannst skína almennt í gegn er að við erum sammála um ákveðin grundvallargildi sem við byggjum okkar þjóðfélag á og ég vona að sú samstaða verði áfram. Ég held að við eigum að líta meira til þess sem er að gerast í heiminum en við höfum gert áður. Kannski gerum við það vegna þess að það eru mörg óveðursský á lofti. En það ætti í raun ekki að vera ástæðan. Það skiptir máli hvað gerist í kringum okkur og það hefur áhrif á okkur öll.

Ég held að það sem Ísland, sem var eðli málsins samkvæmt þegar við gengum inn í Sameinuðu þjóðirnar, geti gert til að láta gott af sér leiða á alþjóðavettvangi sé að sýna gott fordæmi, tala fyrir þeim gildum sem við höfum talað um hér og tala um það af hógværð og yfirvegun. Mér þykir mjög líklegt að það sé þannig sem við viljum að fólk komi fram við okkur og aðrar þjóðir. Ég held að umræðan væri betri, ekki bara í þessum sal heldur alls staðar, ef það væri almenna reglan. Það er margt sem maður getur verið ósáttur við. Maður getur verið mjög ósammála öðrum. Við erum ósammála í þessum sal, ósammála ýmsu sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar um allan heim segja og gera. En ég held að það lagist ekki neitt ef við erum með gífuryrði og uppnefni.

Virðulegi forseti. Í mínum huga er mjög skýrt eins og hér hefur verið nefnt að t.d. Norðurlandasamstarfið er mikilvægara en áður. Margir töldu að það myndi jafnvel renna sitt skeið á enda út af öðrum þáttum. Annað hefur komið í ljós. Ég held að þjóðir heims líti mjög til Norðurlandanna. Á sama hátt held ég að það sé afskaplega mikilvægt að við ýtum undir það sem er grunnurinn að velmegun okkar, sem er frjáls verslun á milli landa. Og út af þeim fyrirspurnum sem hingað hafa komið, menn hafa bæði verið með hvatningu og hlý orð í minn garð, ég þakka fyrir það, þá vil ég fullyrða (Forseti hringir.) svo það sé algerlega á hreinu að við erum ekkert hætt að berjast fyrir þeim hagsmunum sem snúa að okkur núna beint gagnvart okkar ríkisborgurum og (Forseti hringir.) sömuleiðis þeim gildum sem við höfum talað fyrir og munum halda áfram að tala fyrir. Það er eilífðarmál.