146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

þingnefnd um alþjóðlega fríverslunarsamninga.

79. mál
[16:18]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pawel Bartoszek fyrir mjög góða fyrirspurn. Ég er ekki á móti fríverslunarsamningum í prinsippinu. En hins vegar hef ég talsverðar efasemdir til að mynda um þau gögn, sem ég hef aðallega lesið um í gegnum gagnaleka, sem komið hafa fram um þessar viðræður, ekki síst TiSA-viðræðurnar. Þá hef ég talsverðar efasemdir um hvernig þessir samningar eru byggðir upp. Það er ekki tilviljun að þessar viðræður steyttu á skeri innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Það var meðal annars vegna þrýstings frá risafyrirtækjunum sem fannst ekki nógu langt gengið í þá átt. Það sem ég nefndi hér sérstaklega í framsögu minni er auðvitað hvernig ágreiningsmál þjóðríkja annars vegar og stórfyrirtækja hins vegar eru útkljáð, sem hefur verið stórmál og mikið rætt innan TTIP og er enn ekki útkljáð.

Þess vegna segi ég: Það hlýtur að vera kappsmál fyrir þingmenn sem vilja sinna sínu starfi að vera vel heima í svona stórum málum. Ég ætla ekki að útiloka eða segja neitt til um hver afstaða mín eða annarra þingmanna Vinstri grænna verður að lokum gagnvart þessum samningum. Það fer allt eftir því hvernig þeir líta á endanum út. Það sem ég hef mestar áhyggjur af eru hagsmunir almennings í þessum löndum, sem ekki hefur fengið að vita nægilega mikið um þessar umræður. Það hefur verið viðurkennt. Það sést náttúrlega á því þegar stjórnvöld ákveða að birta ekki upplýsingar fyrr en eftir að þeim hefur verið lekið, sem er auðvitað umhugsunarefni í öllum slíkum málum, með þeim afsökunum að samningarnir séu á viðkvæmu stigi.

Auðvitað er þetta almannaréttur sem við þurfum að vera meðvituð um. Við vitum ekkert hvernig þessir samningar enda, hvort til að mynda svona gerðardómur verður hluti af TTIP. Við vitum það ekki. Það er búið að reyna aðrar leiðir, það er búið að hafna þeim leiðum. Nú er þetta aftur komið á borðið. Það kann vel að vera að þetta verði ekki á borðinu. Þess vegna segi ég: Í svona flóknum málum er mikilvægt að þingmenn fái tækifæri til að setja sig (Forseti hringir.) vel inn í mál. Slíkri nefnd er ekki ætlað að komast að endanlegum sannleika eða niðurstöðu en hún gerir okkur öll færari um að komast að niðurstöðu hvert í sinni stjórnmálahreyfingu.