146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg laukrétt. Við getum kallað ráðherrann á fund. Það var gert í tilviki efnahags- og viðskiptanefndar. Óskað var eftir því að ráðherrann kæmi til fundar. Hann neitaði. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd getur vissulega boðað hann til fundar. Og rétt er það, fundurinn verður auðvitað haldinn. Af því að fjórðungur nefndarmanna getur óskað eftir því verður formaður hverrar nefndar að verða við fundarbeiðninni. Ráðherra getur líka dregið úr hófi fram að ákveða að koma ef hann hyggst koma. Hann getur borið við önnum og ýmsu fleiru. Þeir hafa nú gert það í gegnum tíðina þegar erfið mál. hafa verið. Allflestir reyna þó að koma fyrir nefndina sé þess óskað. Ég held að það sé hin almenna reynsla. En þegar mál eru erfið og þung höfum við reynslu af því frá síðasta þingi að ráðherrar komi ekki.

Ég veit ekki hvort við komumst eitthvað lengra með þennan hæstv. ráðherra í nýrri nefnd. En það væri óskandi að það yrði gert, þótt ekki væri nema til þess að fara yfir vinnubrögðin og spyrja hvort þetta sé eitthvað sem búast megi við af hálfu nýrrar ríkisstjórnar, eða öllu heldur með hvaða hætti ráðherrann hyggist breyta þannig að þingið, burt séð frá því hvort þetta verður að lögum eða ekki, fái upplýsingar um það þegar nefndir skila skýrslum eða einhverju slíku. Að tilkynnt verði um það hvort sem ráðuneytið og ráðherrann telja sig svo í framhaldinu þurfa aukið svigrúm til að fara yfir skýrsluna, ganga frá henni eða hvað það nú er. Það þyrfti að vera þannig að þegar starfshópar skila veigamiklum niðurstöðum í erfiðum og flóknum málum beri þeim að sinna tilkynningarskyldu. Það væri áhugavert að heyra álit hæstv. ráðherra á því þegar að því kemur.