146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

sjúkratryggingar.

4. mál
[19:48]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil rétt í lok þessarar umræðu þakka fyrir hana og þakka fyrir jákvæðar og góðar ræður.

Ég held að ekki sé vanþörf á þessu frumvarpi og ég held að sé mikilvægt að það gangi hratt og vel í gegnum þingið og verði samþykkt. Ég átta mig á því að það fer kannski lengri tími í stefnumörkunina þó að ég skilji vel að þetta eigi vel saman. En það eru hættumerki á lofti. Það er nýbúið að bjóða út heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og nú er verið að þrýsta á það að samþykkja einkasjúkrahús. Þetta eru stórar ákvarðanir sem skipta miklu máli fyrir heilbrigðiskerfið, fyrir þjónustu íbúa landsins og það hallar á opinbera kerfið núna. Auk þess, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, er það samdóma álit mikils meiri hluta Íslendinga að heilbrigðisþjónustan eigi mest að vera í opinberum rekstri. Þess vegna getur það ekki gengið að slík ákvörðun liggi hjá einum manni og fari fram hjá þinginu. Það er alveg útilokað að við getum sætt okkur við það þannig að við þurfum að samþykkja þetta frumvarp fljótlega og áður en ráðherrar fara að nýta sér þessar heimildir í lögunum.

Af því að hér var verið að tala um stefnumótun og hafnir og vindáttir þá datt mér í hug Lísa í Undralandi og kötturinn, þegar Lísa spurði köttinn: Hvaða leið á ég að fara? Og kötturinn sagði: Hvert viltu fara? Hún sagði: Ja, ég vil bara fara eitthvað, segir hún, bara eitthvað. Þangað kemstu örugglega, sagði kötturinn, einkum ef þú ferð nógu langt.

Mér finnst að við eigum að hafa þetta í huga þegar við erum að taka stefnuna í svona mikilvægu máli eins og heilbrigðisþjónusta er og í þeim málum sem við höfum verið að ræða hér í dag.