146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

raforkukostnaður garðyrkjubænda.

[10:58]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir gott svar og sérstaklega að finna að hún hefur áhuga á þessu máli. Ég bind því miklar vonir við það að hún beiti sér í því og finni leiðir, vegna þess eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að málið hefur verið til umfjöllunar hjá nokkrum ráðherrum nú þegar.

Mér finnst mjög skrýtið þegar ég hitti garðyrkjubændur að þeir segja alltaf það sama: Það er vilji hjá ráðherranum, það er einlægur vilji til að breyta. Og ég spyr: Af hverju er ekki búið að breyta þessu? Ja, þetta bara er hjá Rarik í einhverju excel-skjali og það er ekki vilji til að breyta. Nú erum við með nýjan ráðherra, öflugan ráðherra. Ég vona að hún beiti sér af heilum hug í þessu máli.

Nú eru niðurgreiðslur talsverðar til garðyrkjubænda vegna raforku. Þetta snýst um það að garðyrkjubændur vilja fá sérstakan taxta. Þeir greiða núna fyrir raforku samkvæmt heimilistaxta sem er mjög óeðlilegt miðað við þá framleiðslu sem þeir vinna við.