146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

einkarekin sjúkrahúsþjónusta.

[11:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er ýmislegt sem nú þegar hefur komið fram í svörum mínum í þessu máli. Ég ætla ekki að endurtaka það. En hv. þingmaður beinir til mín tveimur spurningum. Þeim er í raun nokkuð auðsvarað. Hann spyr hvort ráðherra hyggist veita heimild til sjúkrahúsþjónustu. Ráðherra hefur ekki tekið ákvörðun um það, nei. Það er alveg ljóst að mér ber skylda, ábyrgð og m.a.s. lagaleg skylda til að taka tillit til heilbrigðiskerfisins í heild áður en ég tek afdrifaríkar ákvarðanir af þeim toga. Ég mun standa við þá skyldu mína. Ég hef ekki óskað eftir umsögn landlæknis sérstaklega um slíka ákvörðun enda er hún ekki í farvatninu hjá mér, svo það sé sagt.

Ég vil taka undir það grunnstef sem fram kom í máli hv. þingmanns og fleiri þingmanna hér áðan, að það er mjög mikilvægt, svo ég noti orðfæri hv. þingmanns, að heilbrigðiskerfið á Íslandi sé skipulagt og starfrækt af opinberum aðilum. Það er grunnprinsipp. Ég vil setja þrjú aðalprinsipp gagnvart allri heilbrigðisþjónustu á Íslandi, þ.e. að aðgengi sé gott og jafnt fyrir alla Íslendinga óháð uppruna, efnahag, búsetu o.s.frv.; að gæði þjónustunnar séu skilgreind og skýr, og að kostnaðar, þ.e. meðferð opinbers fjár, sé vel gætt. Það eru grunnprinsipp. (Forseti hringir.) Ég verð að koma betur að framhaldinu í seinna svari.