146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

málefni innanlandsflugvalla.

[15:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hefði kosið að hæstv. ráðherra væri heldur skýrari í svörum svo hann stæði undir nafni sem ráðherra vonar í þessum málaflokki. En ég skal þá reyna að afmarka spurninguna betur og spyrja um Reykjavíkurflugvöll, því að svar hæstv. ráðherra var eingöngu það sem við höfum heyrt alloft áður og ég held að allir viti, að flugvöllurinn verði á sínum stað þar til annað komi í ljós og framtíðin sé óráðin. En er það skoðun hæstv. ráðherra að það eigi að minnsta kosti að skoða það að opna þriðju flugbrautina, neyðarflugbrautina aftur? Að minnsta kosti að skoða það?

Og varðandi Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll: Telur hæstv. ráðherra að til greina komi að ráðast í kostnaðarjöfnun á flutningi eldsneytis svo hægt verði að bjóða upp á eldsneyti á Akureyri og Egilsstöðum á sambærilegum kjörum og í Keflavík? En eins og sakir standa er þotueldsneyti hátt í tvöfalt dýrara á þeim flugvöllum en í Keflavík og segir sig sjálft að það skekkir samkeppnisstöðu þeirra verulega.