146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

verklag við opinber fjármál.

[15:56]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og hæstv. fjármálaráðherra fyrir svör hans sem mér fundust á margan hátt skýra mjög vel það verk sem við erum að fást við akkúrat þessa daga í hv. fjárlaganefnd og við vinnum þar sameiginlega að.

Það sem ég vildi í framhaldi af þeirri ræðu sem var flutt á undan mér segja, og taka undir það sem aðrir hafa líka sagt, að mér finnst að allir hafi ekki áttað sig á því breytta verklagi sem þessi nýju lög fela í sér. Við erum að tala um þrjú aðskilin þingmál í raun og veru. Við erum í fyrsta lagi að tala um fjármálastefnu sem markar rammann fyrir kjörtímabilið í heild sinni og við tökum aðeins einu sinni fyrir á kjörtímabili í upphafi setu hverrar ríkisstjórnar í það minnsta. Ég held að umræðan um fjármálastefnuna núna, ég gat því miður ekki verið viðstaddur framsetningu hennar þegar hún var flutt í þingsalnum, hafi kannski markast af því að við höfum ekki áttað okkur alveg á því stóra verki sem hún er; hún er sú sem slær rammana, þannig að eftir að við höfum slegið þá ramma sem þar eru þá gengur verkið upp. Næsta þingmálið sem við fáum á vordögum, sem er ríkisfjármálaáætlunin sem við verðum þá að ræða á hverju ári fyrir sig, það er hin eiginlega stóra fjárlagavinna sem við þekkjum að hafi verið á undanförnum árum fyrst og fremst að haustinu.

Ég verð mjög var við það í mínu starfi að mér finnst ekki allir hafa áttað sig á því, jafnvel ekki þingmenn og jafnvel ekki einstakar stofnanir í ríkiskerfinu, hvað þá kannski helstu viðskiptavinir fjárlaganefndar ef ég má orða það svo, virðulegi forseti, sveitarstjórnir á hverjum tíma, hafi ekki áttað sig á þessu breytta verklagi. Á því verður að taka.

Ég vil líka taka undir með hv. málshefjanda að við þurfum að skoða starfsáætlun þingsins og starfið, hvernig fjárlaganefndin hefur rými, tæki og tól til að starfa. Ég mun óska eftir því við hv. forseta þingsins og skrifstofustjóra að við setjumst yfir það, kannski líka eftir að við fáum meiri reynslu á þá vinnu sem við erum raunverulega að feta okkar fyrstu spor í, hvernig við getum aðlagað líka nýja starfsáætlun þingsins að þessu breytta verklagi. Það gengur í það minnsta ekki upp í mínum huga eins og það er í dag.