146. löggjafarþing — 26. fundur,  7. feb. 2017.

viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

111. mál
[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég get að vísu ekki staðfest prósentutölurnar nákvæmlega en þetta eru að stofni til reglur sem Fjármálaeftirlitið hafði sett sér. Þetta eru hins vegar reglur sem fjármálaeftirlitið á að framfylgja og var talið eðlilegt að styrkja grunn þeirra reglna þannig að þær væru settar af Alþingi og lögfestar en ekki þannig að stjórnvaldið setti reglur sem það ætti að framfylgja sjálft.

Það eru mjög mörg mál sem við þurfum að innleiða. Þau koma í ýmissi röð. Ég get sannfært hv. þingmann um að ekki hefur verið framið valdarán í fjármálaráðuneytinu. Þar eru margir ágætir starfsmenn sem leggja gott til. En við munum leggja fram mál í samræmi við þingmálalista ríkisstjórnarinnar og vonandi ljúka því í vor eins og þegar hefur verið kynnt fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd.