146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

viðbrögð við skýrslu um Kópavogshæli.

[11:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ítreka að mikilvægt er að við notum þessa skýrslu til að læra af fortíðinni og gera betur í framtíðinni. Ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að halda fund með formanni vistheimilanefndar og fara þá betur yfir þær ábendingar sem settar eru fram í skýrslunni. Mig langar að ítreka spurningu mína varðandi það hvort ráðherra ætli að setja af stað rannsókn um ofbeldi gegn fötluðum börnum. Svo langar mig einnig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist efla stöðu réttindagæslumanna og persónulegra talsmanna svo tryggja megi fötluðu fólki viðeigandi aðstoð við að leita réttar síns varðandi sanngirnisbætur. Ég tel að jafnframt sé ljóst að kostnaður við þá aðstoð megi ekki verða til þess að minnka heildarupphæð þeirra sanngirnisbóta sem verða (Forseti hringir.) greiddar. Það verði að gera það í réttarvörslukerfinu.