146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[13:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og þakka flutningsmanni fyrir framsöguna. Ég vil ræða aðeins um skerðingu á tjáningarfrelsi og hættuna sem fylgir dauðum og úreltum lagabókstaf eins og þeim sem þetta frumvarp hyggst nema úr gildi.

Það minnir mig á þá tíð þegar bannað var með lögum að móðga embættismenn hér á Íslandi. Það þurfti að afnema vegna úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu um að ummæli Þorgeirs Þorgeirsonar í blaði um lögreglumenn og starfshætti þeirra á sínum tíma þættu móðga lögregluna og embættismenn þrátt fyrir að jafnvel væri hægt að færa sönnur á það sem Þorgeir hafði um lögregluna að segja hefði átt við rök að styðjast. Í þá tíð höfðum við lagabókstaf sem lagði refsingu við því að móðga embættismenn, sama hvort þær staðhæfingar sem um var rætt væru á rökum reistar eða ekki. Það var einfaldlega nóg að ótilgreindum embættismönnum þætti vegið að æru sinni með einhverjum ummælum í opinberri umræðu. Mannréttindadómstóll Evrópu tók það sérstaklega fyrir og komst að þeirri niðurstöðu að æra embættismanna ætti ekki að hafa forgang umfram tjáningarfrelsi borgaranna. Lögunum var breytt eftir þetta.

Eins og hv. þingmaður minntist á í ræðu sinni hefur Mannréttindadómstóllinn einnig gefið út löggjöf sem verndar æru erlendra þjóðhöfðingja og að það þyki heldur ekki nægilegt tilefni til þess að skerða málfrelsi borgaranna. Í því samhengi langar mig að rifja aðeins upp fyrir þingheimi hin málefnalegu og lögbundnu skilyrði sem stjórnvöld og yfirvöld verða að hafa í huga ef þau ætla sér að skerða málfrelsi borgaranna. Eins og við vitum er tjáningarfrelsið með okkar allra merkustu grunnréttinda og meðal annars verndað af 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar koma fram þau skilyrði sem uppfylla verður til þess að hægt sé að skerða tjáningarfrelsi borgaranna. Það er í fyrsta lagi að skerðingin sé bundin í lög, í öðru lagi að lagasetningin byggi á einhverjum ákveðnum málefnalegum grundvelli, t.d. til verndar æru manna, vissulega, en síðast en ekki síst að sú lagasetning og sú skerðing sem ætlunin er að standa að sé nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Það er það skilyrði sem Mannréttindadómstóllinn hefur hvað oftast þurft að meta hvort sé uppfyllt þegar kemur að málum sem koma fyrir dómstólinn þar sem því er borið við að málfrelsi borgaranna hafi verið skert.

Við hljótum að spyrja okkur hvort nauðsynlegt sé í lýðræðislegu þjóðfélagi að hefta möguleika borgaranna á að tjá hug sinn gagnvart erlendum þjóðhöfðingjum. Eins og við vitum hef ég stjórnarskrárvarinn rétt til þess að kalla Donald Trump Bandaríkjaforseta fasista, kvenhatara og rasista. Gagnvart því er ég vernduð af stjórnarskrá. Það má ekki sækja mig til saka fyrir þau ummæli nema með leyfi þingsins. En það gildir hins vegar ekki um hinn almenna borgara. Hann á enn þá á hættu að vera sóttur til saka fyrir að láta þess háttar orð falla og nýtur ekki verndar stjórnarskrárinnar og Alþingis þegar hann tjáir sig um jafn mikilvæg mál og persónu og gjörðir erlendra þjóðhöfðingja.

Ég held að það sé mjög skýrt að við verðum að afnema þessa grein almennra hegningarlaga, enda styð ég þetta frumvarp heils hugar. Eins tel ég mjög skýrt að það er engan veginn nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi að gera það refsivert, að viðurlagðri fangelsisvist, að móðga erlenda þjóðhöfðingja, enda er einstaklega matskennt hvað telst móðgun. Ef við gætum sýnt fram á, eins og ég hef reynt að gera, að aðgerðir Donalds Trumps, orð hans og gjörðir renni styrkum stoðum undir að hann sé fasisti, kvenhatari og rasisti, væri þá enn hægt að sækja mig til saka ef ég væri almennur borgari ef ég gæti fært sönnur á ummæli mín eða ekki? Þetta ákvæði tekur ekki á því.

Svo vil ég aðeins ræða hvað það er hættulegt að vera með dauðan lagabókstaf eins og þennan, þ.e. ákvæði, sérstaklega í hegningarlögum, sem ekki er beitt en eru samt sem áður í gildi. Ákvæði sem þessi valda tvennu; þau valda annars vegar réttaróvissu borgaranna, sem ekki vita hvort ákvæðinu verður beitt gegn þeim eða ekki. Það er þarna en er ekki notað. Hvað þýðir það fyrir mig og réttarstöðu mína? Er mér yfir höfuð heimilt að móðga erlenda þjóðhöfðingja eða á ég á hættu að vera sótt til saka fyrir það? Það veit ég ekki meðan þessi lög eru enn þá í gildi. Hins vegar er hætta á broti á jafnræðisreglu þegar svona lagabókstafur er áfram inni sem alla jafna er ekki beitt. Það þarf ekki mikið til þess að veikja réttarstöðu borgaranna ef stjórnvald ákveður svo að sækja einn til saka en ekki annan fyrir ákvæði sem þessi sem ekki eru notuð alla jafna. Það er enn í boði að nota þau. Þá má sjá fyrir sér alls konar leiðir sem stjórnvöld hafa til þess að stýra umræðum, hafa áhrif á borgaranna. Það væri nóg að hóta því að beita þessum lagabókstaf, þótt það sé kannski ekki voðalega þægilegt fyrir viðkomandi embættismann að gera það, en er alltaf hægt að hóta því og beita því. Það er vandamálið við svona lagaákvæði sem eru sjaldan eða aldrei notuð, það er samt enn hægt að nota þau. Það setur réttarríki okkar í hættu, veldur réttaróvissu borgaranna og gengur þar með gegn þeirri almennu reglu að við viljum að borgararnir búi við réttaröryggi. Því finnst mér algerlega nauðsynlegt að við fellum þetta úrelta ákvæði úr gildi.

Ég vona einnig, frú forseti, að þetta verði bara eitt skref af mörgum í átt að bættu tjáningarfrelsi á Íslandi. Það eru ýmis ákvæði, bæði í hegningarlögum sem og annars staðar, sem skerða tjáningarfrelsi borgaranna. Ég leyfi mér að minnast á það í lokin að eitt af þeim ákvæðum sem stuðla óbeint að því er ákvæði sem lögfestir mannréttindasáttmála Evrópu á Íslandi þar sem fram kemur að íslenskir dómstólar eru ekki bundnir af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu nema þegar sem kemur að einstaka dómum sem beinast gegn íslenska ríkinu. Það felur t.d. í sér að dómurinn sem hv. þingmaður vísaði til áðan gegn franska ríkinu hefur ekki falið í sér viðlíka breytingu á lögum hér og þar. Hann hefur ekki orðið þess valdandi að við höfum tekið þetta ákvæði úr lögum hér eða sagt að dómstólum hér sé skylt að fylgja þeim fyrirmælum sem fram koma í dóminum um að ákvæði í lögum sem banna móðgun við erlenda þjóðhöfðingja stangist á við tjáningarfrelsisgrein sáttmálans. Í raun mætti vísa í þá fjölmörgu dóma sem fallið hafa gegn Íslandi hvað varðar tjáningarfrelsi. Mál Þorgeirs Þorgeirsonar var það fyrsta af mörgum og við höfum nú séð þó nokkur þar sem Hæstiréttur hefur fengið ávítur frá Mannréttindadómstól Evrópu fyrir að hafa ekki gert greinargott mat á því hvort skerðing á tjáningarfrelsi, sérstaklega blaðamanna, hafi verið nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi. Það er mat sem Hæstiréttur og dómstólar á Íslandi hafa hingað til neitað að gera þrátt fyrir skýr fyrirmæli Mannréttindadómstólsins þar um og þrátt fyrir að það standi mjög skýrt í mannréttindasáttmála Evrópu að til þess að skerða tjáningarfrelsi borgaranna verði að vera heimild í lögum. Það verður að vera málefnalegur grundvöllur að setja þessa heimild í lögin sem einnig er talið upp í mannréttindasáttmálanum. Það er ekkert spursmál hvaða málefnalegu sjónarmið það eru. Það er nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Ég hyggst leggja fram breytingartillögu á þeim lögum sem lögfestu mannréttindasáttmála Evrópu um að dómstólum á Íslandi verði í auknum mæli gert að taka tillit til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Ég vona að það verði einn liður af mörgum í að efla bæði mannréttindi en þá einna helst og að sjálfsögðu tjáningarfrelsi borgaranna á Íslandi í sambandi við þetta frumvarp.

Ég hlakka til að fá þetta mál inn á borð allsherjar- og menntamálanefndar og þakka flutningsmanni fyrir að leggja það fram. Ég hyggst styðja þetta mikilvæga mál.